Fréttir : Forsíða » Kvennaferð Reykjalundar 2025.

Kvennaferð Reykjalundar árið 2025 var farin síðast liðinn laugardag. Um 40 vaskar konur í starfsmannahópi Reykjalundar mættu eldsnemma upp í rútu á laugardagsmorgninum og héldu af stað í leiðangur. Stefnan var tekin inn í Bása í Þórsmörk að njóta úti í náttúrufegurðinni sem þar er að finna. Á leiðinni var happadrætti með fjöldann allan af vinningum en skemmtinefnd Miðgarðs var búin að fá gjafir og styrki út um allan bæ til að gleðja konur Reykjalundar. Þegar komið var inn í Bása var byrjað á smá kolvetnahleðslu fyrir komandi átök. Grillaðar pulsur voru á boðstólnum að ógleymdu kartöflusalatinu hans Gunna kokks sem sló rækilega í gegn. Eftir stuttan meltingartíma var farið í göngu upp á Réttafell þar sem stórbrotið útsýni í allar áttir lék við okkur. Eftir gönguna var boðið upp á meiri veigar, spilað kubb, tónlist og tíminn nýttur í að kynnast og skemmtilegheit. Dagurinn endaði svo í Þykkvabæ á Hlöðueldhúsinu þar sem við fengum dýrindis mat og trúbbastemningu. Skipulagskeflið var svo afhent áfram og eru það iðjuþjálfarar Reykjalundar sem munu sjá um Kvennaferðina 2027.

Kærar þakkir til allra sem sáu sér fært að mæta, fjölbreyttur hópur úr flestum teymum og faghópum sem spannaði yngri og eldri kynslóð starfsmannahópsins.

Aðal hrósið fær skemmtinefnd Miðgarðs sem sá um að skipuleggja allt og láta daginn verða að veruleika. Nefndina skipa þær Eva Ósk sjúkraliði, Gyða hjúkrunarfræðingur, Helena sjúkraliði, Anna Fríða hjúkrunarfræðingur og Bente sjúkraliði.

Skip to content