Jafnvægi í daglegu lífi
Iðjuþjálfar hafa umsjón með námskeiði í streitustjórnun. Markmið námskeiðsins er að þátttakendur skoði jafnvægi sitt í daglegu lífi, fræðist um hlutverk, venjur, skipulag, streitu og áhrif hennar á daglegt líf.
Í námskeiðinu er lögð áhersla á sjálfskoðun, þ.e. að einstaklingurinn verði meðvitaðri um hlutverk sín, gildi, uppbyggilegar venjur, hugarfar og styrk, þekki helstu streituvalda, streitueinkenni og mismunandi bjargráð. Velti fyrir sér hvernig samskipti hafa áhrif á daglegt líf og fræðast um forgangsröðun, tímastjórnun og markmið til breytinga. Þannig getur hver og einn áttað sig á hverju hann þarf og vill breyta hjá sjálfum sér og í umhverfinu til að draga úr streitu og stuðla þar með að bættri heilsu og auknu jafnvægi í daglegu lífi.
Á námskeiðinu er einnig farið í mikilvægi slökunar og þátttakendur fá að kynnast mismunandi aðferðumtil að slaka á.
Námskeiðið stendur yfir í tvær vikur og er samtals 8 kennslustundir. Námskeiðið hefur verið mjög eftirsótt, enda streitustjórnun mikilvægur þáttur í endurhæfingu einstaklinga í nútíma þjóðfélagi.
Hvað er jafnvægi í daglegu lífi?
Einstaklingurinn upplifir jafnvægi í sínu daglega lífi þegar samræmi er á milli styrkleika hans og þeirra krafna sem við og aðrir gera til okkar. Streita myndast ef og þegar einstaklingur upplifir ójafnvægi milli þessara krafna og styrkleika sinna.
Dæmi um leiðir að jafnvægi í daglegu lífi
- Forgangsraða verkefnum
- Setja sér raunhæf markmið
- Gefa sér tíma fyrir slökun
- Ekki reyna að vera öllum allt
- Gefa sér tækifæri
- Læra að segja „nei“
- Vera ávallt besti vinur þinn
- Njóta gleðinnar í lífinu