Fréttir : Forsíða » Föstudagsmolar forstjóra 30. maí 2025

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Veðrið hefur leikið við okkur undanfarið og vonandi hafa sem flest ykkar náð að njóta og eru að komast í sumargírinn. Þetta er sannarlega ánægjulegt, ekki síst fyrir þá sem muna eftir vorinu og sumrinu í fyrra þegar góðviðriðsdagarnir voru langt því frá of margir. Til gaman læt ég fylgja með molunum í dag loftmyndir af Reykjalundarsvæðinu þegar það skartar sínu fegursta. Myndirnar tók ljósmyndarinn okkar Raggi Óla, reyndar á góðviðrisdegi í fyrrasumar en engu að síður er sannarlega gaman að þessu. Svo læt ég eina vetrarmynd frá honum fljóta með.

Talandi um komandi sumar. Starfsmannafélagið okkar mun halda árlega sumarhátíð fyrir okkur starfsfólk, börn og barnabörn þann 26. júní. Viðburðurinn hefur verið sérstaklega auglýstur og verður með svipuðu sniði og í fyrra en hátíðin þá tókst alveg glimmrandi vel. Það er óskandi að verðurguðirnir verði okkur hliðhollir og ég er sannfærður um að svo verður. Endilega takið daginn frá og ég sendi þakklætiskveðjur til stjórnar starfsmannafélagsins fyrir framtakið.

Von er á dagsetningu árlegs tiltektardags okkar á næstunni en dagurinn verður með seinna móti þetta árið vegna CARF-gæðavottunar-úttektarinnar sem fram fer í næstu viku.

Og talandi um CARF. Þó flest ykkar náið vonandi að sinna eðlilegri og daglegri vinnu í næstu viku verða líka mörg okkar þátttakendur í alþjóðlegu gæðaúttektinni sem fram fer í næstu viku. Nú er komið að þessu. Í næstu viku koma hér viðurkenndir erlendir aðilar og taka út starfsemina okkar og bera saman við alþjóðlega staðla sem settir hafa verið fram varðandi endurhæfingarstarfsemi eins og hún gerist best í heiminum. Við höfum undirbúið okkur vel og verið að aðlaga starfsemina að stöðlunum. Þetta hefur verið heilmikil vinna og reynt töluvert á. Það góða er þó að engin stór atriði úr þessum gæðastöðlum vantar varðandi framkvæmd í okkar dagslega starfi heldur hefur þetta snúist fyrst og fremst um uppfærslur á því sem fyrir er og koma mörgu af því sem við gerum á skriflegt form. Góð dæmi eru fjöldi verkferla sem við höfum verið að skýra og skerpa á. Allt er undir í starfseminni okkar, allt frá faglegu starfi með sjúklingum yfir í fjármálastjórnun og starfsemina í eldhúsinu svo dæmi séu tekin.

Það er ekki spurning að þetta gerir okkar flotta starf enn betra og faglegra, og ég er sannfærður um að formleg alþjóðleg gæðavottun verður veitt á okkar starfsemi.

Kærar þakkir til allra sem komið hafa að undirbúningnum og svo bið ég alla að sýna þolinmæði og skilning í næstu viku þegar tími og athygli margra mun fara í sjálft úttektarferlið. Við munum svo bjóða ykkur til formlegrar kynningar á upplifun úttektaraðilanna og lokahátíðar í lok dags næsta föstudag og verður það auglýst sérstaklega.

Að lokum vil ég þakka öllum fyrir þátttökuna í rýmingaræfingunni sem fram fór í vikunni. Öryggi sjúklinga og okkar starfsfólks er gríðarlega mikilvægt atriði í daglegu lífi okkar þannig að slíkum málum verður að sýna virðingu og taka alvarlega. Því var frábært að sjá áhuga og þátttöku ykkar allra í æfingunni.

Góða og gleðilega helgi!

Pétur

Skip to content