Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Hvítbók um endurhæfingarþjónustu til framtíðar.
Á mánudaginn tók ég, ásamt nokkrum öðrum fulltrúum Reykjalundar, þátt í heilsdags stefnumótunarfundi um endurhæfingu á vegum heilbrigðisráðuneytisins. Heilbrigðisráðuneytið vinnur nú að gerð svokallaðrar Hvítbókar um endurhæfingarþjónustu til framtíðar. Í stuttu máli er „Hvítbók“ skjal sem stjórnvöld gefa út til að skýra afstöðu sína til ákveðins málaflokks og á Wikipedia á veraldarvefnum er „Hvítbók“ skilgreind með eftirfarandi hætti: „Hvítbók er bók sem ríkisstjórn gefur út til að skýra afstöðu sína til einhvers tiltekins máls eða hvernig eigi að leysa núverandi eða komandi vandamál. Ríkisstjórn getur t.d. ákveðið að gefa út hvítbók um stefnu sína í orkumálum á 21. öld eða um efnahagsstjórn næsta áratugar og hvað beri að gera og hvað beri að varast svo dæmi séu tekin.“
Markmið Hvítbókar um endurhæfingarþjónstu til framtíðar er að móta skýra framtíðarsýn þeirrar endurhæfingarþjónustu sem veitt er og fjármögnuð af hinu opinbera, eins og segir í kynningartexta ráðuneytisins. Verkefnið byggir m.a. á fyrri stefnumörkun og gildandi aðgerðaáætlun, ásamt leiðbeiningum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar um áherslur í endurhæfingu til ársins 2030 (Rehabilitation Initiative 2030). Stór þáttur í þessari vinnu var að afla ganga frá aðilum í endurhæfingarþjónustu sem gert var í sumar og fara í gegnum vinnustofuna síðasta mánudag. Drög að Hvítbókinni verða kynnt í samráðsgátt á næstunni og svo kynnt nánar á Heilbrigðisþingi um endurhæfingu sem fram mun fara þann 20. nóvember n.k. Sannarlega mikilvægt og spennandi fyrir okkur.
Flutningar starfsstöðva.
Eins og kynnt var á starfsmannafundi á dögunum eru nokkrir úr starfsmannahópnum að flytja starfsstöðar sínar þessa dagana og nær þessi flutningakapall hámarki í næstu viku. Til dæmis eru sálfræðingar að sameinast á D1-gangi, félagasráðgjafar verða aftur saman og skráningarmiðstöð mun flytja á rauða ganginn svokallaða. Umfangsmest í þessu er þó líklega að tíu starfsmenn stoðdeilda mun flytja starfsstöðvar sínar í Oddshús. Í kringum svona flutninga er að ýmsu að huga og vil ég nota tækifærið og þakka öllum fyrir þolinmæðina. Sjálfsagt þarf ennþá meiri skammt af þolinmæði í næstu viku í kringum flutningana sjálfa og án ef ýmis atriði koma upp sem úr þarf að leysa. Markmið er þó að til lengri tíma sé þetta til að bóta fyrir sem allra flesta.
Fartölvugjöf frá Hollvinum.
Í dag færðu Hollvinir Reykjalundar okkur sex fartölvur að gjöf. Það var mjög kærkomið enda góður tækjabúnaður gríðarlega mikilvægur í heilbrigðisþjónustu nútímans. Fannar okkar var ekki lengi að koma þeim í notkun – hjá súkraþjálfurum, sálfræðingum og talmeinafræðingum svo einhverjir séu nefndir.
Myndin með molunum í dag er af fulltrúum Hollvinasamtakanna ásamt Fannari forstöðumanni upplýsinga- og velferðartækni, Ellu Björt taugasálfræðingi og undirrituðum.
Við sendum hlýjar þakklætiskveðjur til Hollvinasamtaka Reykjalundar.
Góða og gleðilega helgi!
Pétur