Fréttir : Forsíða » Föstudagsmolar forstjóra 12. september 2025.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

 

Þetta er svo mikið í okkar eigin höndum.

Á starfsmannafundinum okkar í vikunni ræddi ég aðeins um mikilvægi þess að það sé skemmtilegt í vinnunni. Þar á ég ekki við að í gangi sé stöðug skemmtidagskrá heldur frekar að samstarfsfólk láti hvert öðru líða vel og beini athyglinni að því jákvæða, skemmtilega og ánægjulega frekar en því neikvæða. Það er mjög mikið í okkar eigin höndum hvernig okkar eigið líf er og það er líka mikið í okkar höndum hvort það er gaman í kringum okkur eða ekki í vinnunni. Það er ágætt að velta fyrir okkur spurningum eins og hvernig vil ég hafa vinnustaðinn minn og hvað get ég lagt að mörkum til að deildin mín eða starfseiningin sé svoleiðis. Hvet ykkur til að pæla aðeins í þessu.

Svo er auðvitað alltaf gaman líka að gera eitthvað skemmtilegt saman og á fundinum var farið yfir nokkra spennandi viðburði tengdum okkur starfsfólki sem framundan eru.

Sérstaklega er skemmtilegt í því samhengi að minnast á golfmót Reykjalundar sem fram fór í vikunni. Þar tóku nokkrir úr starfsmannahópnum sig saman, með Astrid heilbrigðisgagnafræðing í fararbroddi og stóðu fyrir golfmóti og söfnuðu flottum vinningum. Um 30 starfsmenn tók þátt og þrátt fyrir að veðrið væri ekki með sparilegra móti, var gleðin sannarlega við völd. Sigurvegarar voru þær Ester í móttökunni, Helga næringarfræðingur, Stefanía hjúkrunarfræðingur á Miðgarði og Inga hjartalæknir.

Við óskum þeim til hamingju með sigurinn og það er vel við hæfi að molunum í dag fylgi nokkrar flottar myndir frá golfmótinu. Sigursveitin er á fyrstu mynd.

 

Jólahald á Reykjalundi 2025.

Þó það séu alveg 103 dagar til jóla vil ég gjarnan kynna fyrir ykkur skipulag jólahalds á Reykjalundi þessi jólin sem framkvæmdastjórn og stjórnendahópurinn okkar hafa samþykkt.

Tíminn líður hratt og margir vilja skipuleggja sig tímanlega fyrir þennan árstíma.

Mig langar jafnframt að biðja okkur öll að hafa í huga “jafnvægi” kringum jólin og desembermánuð. Þó mörg okkar séu að springa úr spenningi og elski þennan árstíma, þurfum við að hafa í huga að á sama tíma líður kannski ekki öllum jafn vel. Þetta er sá tími ársins sem við rifjum upp minningar og hefðir – og ýmsar tilfinningar vakna. Þeir sem hafa misst ástvin eru kannski að upplifa sorgina og eru að breyta hefðum kringum jólin. Oft eru þetta breytingar á jólasiðum sem fólk vill ekki en verður að gera. Höfum þetta bak við eyrað. Þó gleðin eigi að sjálfsögðu að ríkja þarf líka að muna að sýna kannski aðeins meiri nærgætni og hlýju á þessum tíma. Það er líka mikið af aukaálagi af ýmsu tagi og ýmsum útgjöldum í desember, sem er ekkert endilega fagnaðarefni fyrir alla.

 

En til þess að við starfsfólk getum notið jólanna sem best og hlaðið batteríin koma hér helstu jólaviðburðir Reykjalundarlífsins:

  • Jólafundur, miðvikudagur 3. desember. Óhefðbundinn starfsmannafundur. Starfsaldursviðurkenningar veittar og spennandi leynigestur.
  • Jólaball, mánudagur 8. desember. Höldum árlegt jólaball fyrir okkur starfsfólk, börn og barnabörn.
  • Jólamatur, miðvikudagur 10. desember. Reykjalundur býður í jólamat. Allir hvattir til að mæta í jólapeysu og/eða öðrum jólalegum klæðnaði. Hin fræga, árlega jólamyndataka fer einnig fram þennan dag.

Þetta verður allt auglýst nánar þegar nær dregur.

 

Jólagjöfin til okkar starfsfólks Reykjalundar jólin 2025 er svo þrír vinnudagar þar sem engin starfsemi fer fram og gefið er aukafrí þessa daga. Um er að ræða hálfan dag 24. desember, mánudaginn 29. desember og þriðjudaginn 30. desember auk hálfs dags 31. desember. Þetta gefur okkur starfsfólki 9 daga samfellt frí sem vonandi kemur að góðum notum.

Föstudaginn 2. janúar er ekki almenn sjúklingavinna hjá okkur en skráningarmiðstöð verður opin. Með þessu móti gefst okkur starfsfólki kostur á að vinna skráningarvinnu, ýmsan undirbúning og tiltekt eða taka orlof og ná þannig 12 daga samfelldu fríi. Miðgarður er ekki með sjúklinga frá 19. desember til 5. janúar þó einhver starfsemi verði í gangi. Mánudaginn 5. janúar byrjar svo starfsemin á fullum krafti á öllum vígstöðvum.

 

 

Að lokum er svo rétt að geta þess að um helgina er svo hin fræga „kvennaferð“ Reykjalundar þar sem fögur fljóð og valkyrjur úr starfsmannahópnum halda á vit ævintýranna. Það verður spennandi að heyra ferðasögur en undirbúningur í þetta skiptið er í höndum Miðgarðs – og sagan segir að það standi mikið til!

Njótið helgarinnar!

Skip to content