Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Það hefur verið nóg að gerast hér á Lundinum í vikunni. Eins og fram hefur komið, fengum við hóp þingmanna í heimsókn á miðvikudaginn og var mjög mikilvægt að fá að kynna fyrir þeim starfsemina okkar. Í vikunni voru til dæmis líka í heimsókn hjá okkur læknanemar á 6. ári sem fræddust um starfið okkar. Á einni af myndunum með molunum í dag má sjá Guðrúnu Nínu Óskarsdóttur lungnalækni í fræðslu fyrir læknanemana.
Bleikur Reykjalundur í október.
Nú í október eru byggingar Reykjalundar lýstar upp með bleikum lit. Líkt og undanfarin ár tökum við þátt í árvekniátaki Krabbameinsfélagsins þar sem landsmenn eru hvattir til að bera Bleiku slaufuna, klæðast bleiku og lýsa skammdegið upp í bleikum ljóma svo allar konur sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra finni stuðning okkar og samstöðu. Þetta nær allt hápunkti á Bleika deginum sem þetta árið er miðvikudagurinn 22. október. Þá hvetjum við alla til að klæðast bleiku til að sýna stuðning með málstaðnum og kynnum við það frekar þegar nær dregur.
Aðalfundur Hleinar.
Í vikunni fór fram aðalfundur Hleinar. Hlein er hjúkrunarsambýli fyrir einstaklinga sem hafa fatlast mikið af völdum sjúkdóma eða slysa. Markmið starfseminnar er fyrst og fremst að hjálpa þeim að lifa eins eðlilegu lífi og hægt er. Á heimilinu búa sjö manns. Hlein er í eigu SÍBS og er með sérstakan rekstrarsamning við Sjúkratryggingar Íslands. Hlein er staðsett á lóð Reykjalundar og íbúar fá þjálfunar- og læknisþjónustu frá Reykjalundi. Í húsakynnum Reykjalundar er rekin vinnustofa fyrir íbúa Hleinar.
Hlein var lengi rekin sem deild inn í Reykjalundi en nýlega var það gert af sérstöku fyrirtæki til að tryggja skýra aðgreiningu frá starfsemi Reykjalundar þannig að ekki sé hætta á að fjármál þessara tveggja aðila blandist saman. Í stjórn Hleinar sitja Anna Stefánsdóttir formaður, Haraldur Sverrisson meðstjórnandi og undirritaður sem varamaður og fulltrúi Reykjalundar. Allir stjórnarmenn voru endurkjörnir. Anný Lára Emilsdóttir hjúrkunarfræðingur er framkvæmdastjóri Hleinar eins og kunnugt er. Rekstur Hleinar er í járnum en tókst vel til á síðasta ári þannig að allt endaði réttu megin við núllið. Á einni af myndunum með molunum í dag má sjá Önnu Stefánsdóttur, formann stjórnar Hleinar í ávarpi sínu á aðalfundinum.
Ég átti í morgun leið fram hjá vinnustofu Hleinar sem staðsett er hér í G-álmu Reykjalundar. Þar var mikið líf og fjör en hún Cindy, einn af íbúum Hleinar, á afmæli um helgina og bauð upp á köku og fjör. Auðvitað tókum við þessa fínu mynd og við óskum Cindy til hamingju með afmælið.
Ráðstefnunefnd komin í gang – Ertu með hugmynd að efni?
Ein af fjömörgum afurðum umfangsmikillar stefnumótunar Reykjalundar haustið 2023, er að árlega haldi Reykjalundur vandaða ráðstefnu fyrir heilbrigðisstarfsfólk tengda endurhæfingu. Við hófum þá vegferð strax í mars árið 2024 þar sem við buðum upp ráðstefnu þar sem fjallað var um meðferð við offitu út frá faglegri nálgun á samfélagstengdum sjúkdómi. Húsið var troðfullt. Í febrúar á þessu ári vorum við svo með fullan sal af fóki þegar við buðum upp á heils dags ráðstefnu um endurhæfingu í víðum skilningi og fjöldi aðila sem veitir endurhæfingaþjónustu sagði frá starfi sínu.
Ráðstefnunefnd hefur þegar komið saman til að skipuleggja næstu ráðstefnu sem stefnt er á að halda í febrúar á næsta ári. Mig langar að hvetja þau ykkar sem eru með spennandi hugmyndir að efnistökum að vera í sambandi.
Njótið helgarinnar!
Bestu kveðjur,
Pétur