Göngudeild

Á Reykjalundi er göngudeildarmóttaka sem er sameiginleg fyrir öll meðferðarsvið stofnunarinnar. Þar fara fram greiningarviðtöl og ráðgjöf í aðdraganda innskriftar, meðferð og endurkomur.

Til að komast að í endurhæfingu eða meðferð á Göngudeild Reykjalundar þarf að koma beiðni frá lækni. Fer þá sjúklingur á biðlista og þegar röðin er komin að honum er hann boðaður í forskoðun og viðtal.

Göngudeildin er opin alla virka daga frá kl. 8-16. Mikilvægt er að tilkynna forföll, sími 585 2000

Gjaldskrá göngudeildar (pdf)

Í fyrstu komu er aflað upplýsinga frá sjúklingi með viðtali og skoðun. Gerð eru ýmis próf til dæmis til að meta styrk og úthald. Einnig fer fram vigtun, fitumæling og lagðir eru fyrir spurningalistar. Við endurkomu eru sett ákveðin markmið með sjúklingi og gerð sértæk einstaklingsmiðuð þjálfunar- og virkniáætlun. Að jafnaði er síðan eftirfylgd með reglulegum komum á göngudeild í 6-12 vikur. Sjúklingar eru síðan annaðhvort útskrifaðir og læknabréf sent til tilvísandi læknis til áframhaldandi eftirlits, eða sjúklingi vísað til frekari meðferðar innan sérhæfðra meðferðarsviða Reykjalundar.

Mat á árangri fer fram í lok eftirfylgdar meðal annars með endurteknum  prófum. Þegar endurhæfingu er stýrt frá göngudeild, er nauðsynlegt að kynna sér vel hvaða möguleikar eru til staðar til þjálfunar og stuðnings  í heimabyggð viðkomandi og að byggja á samvinnu þar til dæmis við heilsugæsluna.

Utan við starfsemi sérhæfðra meðferðarsviða Reykjalundar er á göngudeildinni sérstakt teymi læknis, hjúkrunarfræðings og sjúkraþjálfara. Teymið sinnir þeim sjúklingum sem af einhverjum ástæðum er óvíst hvaða meðferðarsvið henti best, til dæmis ef vandamál eru fjölþætt eða ef geta sjúklings til að nýta sér endurhæfingu er óviss.

Geti sjúklingur ekki staðgreitt gjald fær hann afhentan greiðsluseðil sem greiða skal sem fyrst. Greiðist seðillinn ekki á eindaga sem er einum mánuði eftir komudag fer af stað hefðbundið innheimtuferli. Fyrsta skrefið er símhringing frá Reykjalundi, því næst innheimtubréf ef greiðsla berst ekki innan þess tíma sem samkomulag náðist um í símtali. Verði krafan ekki greidd innan þess frests sem veittur var í innheimtubréfi er hún send í lögfræðiinnheimtu.