Taugateymi

Á taugasviði Reykjalundar fer fram þverfagleg endurhæfing. Meðferð fagaðila er metin út frá þörf einstaklingsins samkvæmt klínískum leiðbeiningum og fer ýmist fram í sveigjanlegri hópmeðferð eða á einstaklingsgrundvelli. Endurhæfing miðar að því að auka samfélagsþátttöku, t.d. efla getu til starfa eða náms. Stundum snýst hún um að auka sjálfsbjargargetu eða færni til að geta sinnt daglegum verkefnum og tekið þátt í félagsstarfi eða tómstundum. Oft er unnið að því að efla skilning og auka sátt við afleiðingar sjúkdóms eða færniskerðingar þegar ekki er hægt að ná fullri heilsu að nýju. Síðast en ekki síst stuðlar endurhæfing oft að betri líðan og eykur lífsgæði einstaklingsins og fjölskyldu hans. Horft er til framtíðar í endurhæfingunni og við útskrift er gjarnan unnin einstaklingsbundin áætlun og eftirfylgd skipulögð eftir þörfum

Heimilislæknir sækir um meðferð hjá Taugateymi Reykjalundar þar sem beiðni er metin. Til að fá nánari greiningu á vanda er sjúklingur boðaður á göngudeild eða 1-2ja daga endurhæfingarmat.

Ef talið er þörf á þverfaglegri endurhæfingu á taugateymi fær sjúklingur boð um meðferð sem felur bæði í sér einstaklingsviðtöl og hópmeðferð, s.s. viðtöl, fræðsla, þjálfun, lyfjameðferð, markmiðs og/eða fjölskyldufundur. Lengd endurhæfingartímabils er breytilegur, getur verið allt frá 2 og upp í 12 vikur.

Við útskrift eru gerðar mælingar og mat á árangri og metin er þörf fyrir áframhaldi meðferð eða stuðning eftir útskrift. Regluleg eftirfylgd er hjá sjúklingum sem hafa farið í hópmeðferð fyrir fólk með Parkinson og MS-sjúkdóm að þremur mánuðum liðnum. Markmið með eftirfylgd er að meta og mæla hvort árangur meðferðar hafi haldist sem og að fara yfir hvort áætlanir við útskrift hafi gengið eftir. Hjá öðrum sjúklingahópum er metið hverju hverjir hafi þörf fyrir eftirfylgd og hvernig eftirfylgd verður háttað.

Taugasvið þjónustar breiðan hóp einstaklinga með meðfædda og  ákomna sjúkdóma eða skaða í taugakerfi. Má þar nefna einstaklinga með  heilaskaða af ýmsum orsökum, heilaáföll, parkinsonsveiki, MS, starfræn  taugaeinkenni, CP (cerebral palsy) og aðra meðfædda vöðva- og  taugasjúkdóma eins og myotonic dystrophy og SMA (spinal muscluar  dystrophy).

Almennt:

  • Jafnvægi í daglegu lífi
  • Svefnskólinn
  • Fræðsla við komu
  • Hugað að heilsunni
  • Félagsleg réttindi og stuðningur vegna langvinnra veikinda
  • Göngur
  • Iðjuþjálfun
  • Leikfimihópar
  • Sjúkraþjálfun
  • Slökun
  •  Vatnsleikfimi

Parkinson:

  • Hægðu á sjúkdómnum með hreyfingu
  • Næring í tengslum við Parkinsons
  • Fræðsla um áhrif parkinson sjúkdóms á rödd og tal

Félagsráðgjöf, sálfræðiþjónusta og lífsstílsráðgjöf eftir þörfum

Móttaka Reykjalundar er í síma 585-2000