Fréttir : Forsíða » Reykjalundur fagnaði 80 ár afmæli og útgáfu bókar með notalegri samveru í Hlégarði

Þriðjudagskvöldið 16. desember 2025 var Hlégarður í Mosfellsbæ fylltur hlýju og hátíðlegu andrúmslofti þegar Reykjalundur fagnaði 80 ára afmæli sínu og útkomu nýrrar bókar um sögu og starfsemi staðarins. Tilefnið var einstakt og markaði mikilvægan áfanga í sögu Reykjalundar, sem í átta áratugi hefur gegnt lykilhlutverki í endurhæfingu og þjónustu við fólk víðs vegar að af landinu.

Svana Helen Björnsdóttir, starfandi forstjóri og stjórnarformaður Reykjalundar, setti hátíðina með ávarpi þar sem hún fór yfir mikilvægi stofnunarinnar fyrir íslenskt samfélag, bæði fyrr og nú. Í ávarpi Svönu kom einnig fram björt framtíðarsýn. Í kjölfarið sagði Bjarki Bjarnason, riststjóri bókarinnar, Reykjalundur endurhæfing í 80 ár, frá bókinni.  Fjallar bókin um sögu Reykjalundar, starfsemina og þær miklu breytingar sem orðið hafa í gegnum árin.

Á meðan dagskrá stóð yfir birtust myndir úr starfi og sögu Reykjalundar á skjá og vöktu myndirnar bæði minningar og áhuga gesta. Boðið var upp á léttar veitingar og notalega samveru þar sem gestir nutu þess að spjalla saman í hlýlegu umhverfi.

Bókin var til sölu á staðnum og vakti mikla athygli meðal gesta, enda er hún bæði fróðleg heimild og dýrmætur minjagripur fyrir alla sem tengjast Reykjalundi eða hafa áhuga á sögu hans. Bókin er og verður áfram til sölu í móttöku Reykjalundar, skrifstofu SÍBS og helstu bókaverslunum.

Kvöldið í Hlégarði varð þannig litrík og eftirminnileg hátíð til heiðurs Reykjalundi og því mikilvæga hlutverki sem stofnunin hefur gegnt á Íslandi í samfellt 80 ár.

Ljósmyndari: Árni Rúnarsson

Skip to content