Fréttir : Forsíða » Nýbirt vísindagrein um skilvirkni öndunar hjá astmasjúklingum

Nýbirt vísindagrein um skilvirkni öndunar hjá astmasjúklingum

Nú á dögunum birtist greinin „Assessing ventilatory efficiency at rest in asthma: A longitudinal comparison with healthy subjects“ í tímaritinu Physilogical Reports. Höfundar eru Monique van Oosten sjúkraþjálfari, læknarnir Árni Johnsen og Björn Magnússon og  Marta Guðjónsdóttir lífeðlisfræðingur og rannsóknarstjóri á Reykjalundi.

Greinin er afrakstur meistaranámsverkefnis Monique í  Lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands en umsjónarkennari hennar var Marta.

Í rannsókninni voru  notaðar lífeðlisfræðilegar mælingar á öndun og efnaskiptum í hvíld hjá sjúklingum með astma og bornar saman við heilbrigðan samanburðarhóp. Tilgangurinn var að kanna  hvort skilvirkni hvíldaröndunar væri mismunandi hjá þessum hópum og reyndist svo ekki vera. Eins var athugað hvort mæligildi héldust stöðug yfir allt að eitt ár sem þau gerðu. Hins vegar voru sjúklingarnir með meira næmi öndunarstöðva fyrir koltvísýringi (CO2) en heilbrigðir og hluti þeirra með oföndun í hvíld. Aukið næmi fyrir CO2 getur leitt til  óskilvirkrar öndunar eða jafnvel oföndunar við andlegt áreiti eða líkamlega áreynslu. Mælingar sem þessar ættu að nýtast til að meta hvort íhlutun eins og öndunarþjálfun breyti skilvirkni öndunar og næmi öndunarstöðva fyrir CO2 hjá astmasjúklingum, en til þessa hefur árangur slíkrar þjálfunar fyrst og fremst verið metinn með spurningarlistum sem meta einkenni en ekki öndun beint.

Greinin er í opnum aðgangi á slóðinni https://doi.org/10.14814/phy2.70490

Að lokum má geta þess að Björn Magnússon lungnalæknir, einn höfundanna, starfaði lengi á Reykjalundi. Hann ýtti úr vör endurhæfingu lungnasjúklinga og vann ötullega að stofnun og þróun  Hjarta- og lungnarannsóknarstofu Reykjalundar.

Skip to content