Fréttir : Forsíða » Annasamt síðdegi á Hlein

Annasamt síðdegi á Hlein

Góðviðrisdaginn 20. ágúst sl. var mikið um að vera á hjúkrunarsambýlinu Hlein, sem staðsett er á lóð Reykjalundar. Á Hlein búa einstaklingar sem hafa fatlast mikið af völdum sjúkdóma eða slysa. Heimilið er í eigu SÍBS og er með rekstrarsamning við Sjúkratryggingar Íslands.

Hollvinasamtök Hleinar héldu aðalfund sinn í húsnæði Hleinar en þau samtök styðja við starfsemi Hleinar í samráði við starfsfólk og yfirstjórn Hleinar. Aðalfundarstörf fóru fram með hefðbundnum hætti og var stjórn endurkjörin, en hana skipa Halldóra Vífilsdóttir, Kristjana Knudsen, Ragnheiður Vídalín Gísladóttir og Jóhanna Jónsdóttir.

Í kjölfar aðalfundarins buðu íbúar Hleinar sínu besta fólki í veislu. Pylsur með öllu tilheyrandi voru á boðstólnum, undir stjórn Sigurbjargar Helgu Bender. Sibba lét nýverið af störfum á Hlein vegna aldurs og enginn hefur ennþá toppað leyniuppskriftina hennar þegar kemur að pylsusuðu. Annar starfsmaður Hleinar, María Rós Sigurðardóttir, einnig þekkt sem Mæja litla, söng og spilaði við frábærar undirtektir.

Á skemmtuninni færðu Hollvinasamtökin Hlein tvö hjálpartæki að gjöf; salernisupphækkun og göngubelti. Anný Lára framkvæmdastjóri Hleinar færði Vinnustofu Hleinar stækkaða ljósmynd úr einkasafni til að skreyta rýmið. Hún færði forsvarsmönnum vinnustofunnar, Maríu Haukdal Styrmisdóttur iðjuþjálfa og Oddnýju Hildi Sigþórsdóttur kennara sérstakar þakkir fyrir þeirra frábæra starf, sem og öðrum starfsmönnum Hleinar.

Þeir sem hafa áhuga á að ganga í hollvinasamtökin er bent á að hafa samband við Anný Láru í gegnum netfangið annylara[hjá]reykjalundur.is eða í síma 585 2092 á dagvinnutíma. Við hvetjum lesendur til að gerst vinir Hleinar á fésbókinni, en síðan ber nafnið Hollvinasamtök Hleinar.

Skip to content