Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Hér koma föstudagsmolar þessarar viku en gestahöfundur í dag er Guðbjörg Gunnarsdóttir mannauðsstjóri. Hún flytur okkur stutta hugvekju um mikilvægi þess að hlaða tankinn okkar.
Ég vona að sem flest ykkar nái að njóta menningarnætur og eigið góða helgi.
Við óskum svo öllum hlaupurum góðs gengis og sérstaklega vil ég færa hlaupurum sem safna áheitum fyrir Hollvinasamtök Reykjalundar kærar þakkir fyrir hlýhug í okkar garð.
Bestu kveðjur,
Pétur
*****
Föstudagsmolar 22. ágúst 2025 – Að hlaða tankinn.
Það er ekki úr vegi að líkja starfsfólki Reykjalundar við orkustöðvar. Dag hvern veitum við sjúklingum okkar og ekki síður hvert öðru, orku í einhverri mynd. Hvatning, samkennd, hlustun, leiðsögn, virðing, traust, umhyggja, allt er þetta til þess fallið að veita orku, dýrmæta orku sem getur skipt sköpum fyrir hvert og eitt okkar.
Störfin okkar eru oft krefjandi en á sama tíma gefandi. Félagslegi þátturinn er mikilvægur í leik og starfi og stundum er gott að muna að við erum ekki „bara í vinnunni“. Við erum samvistum við hvert annað og það eitt gefur orku og næringu.
Brostir þú til einhvers í dag ?
Hrósaðir þú einhverjum í dag ?
Það eru oftast litlu hlutirnir sem vega þyngst og við megum ekki gleyma að þakka fyrir þá. Munum að bros getur kveikt von, samtal getur breytt deginum og hrós er aldrei óþarft.
Mig langar til að skora á þig að hrósa einhverjum á hverjum degi alla næstu viku (og helst alla daga alltaf).
Það er langur listi starfsfólks Reykjalundar sem ég get hrósað fyrir svo margt en að þessu sinni ætla ég að nefna tvo einstaklinga. Þetta eru þau Jórunn sálfræðingur og Fannar forstöðumaður upplýsinga- og velferðartæknimála. Það sem einkennir þau bæði er hlýtt viðmót, fagmennska og framúrskarandi hæfni í mannlegum samskiptum. Takk fyrir að vera liðsmenn Reykjalundar bæði tvö.
Starfsfólk Reykjalundar er hjarta þessa húss og öll erum við í sama liði ……… liði sem er býsna gott og er að skila frábærum árangri.
Áfram við og góða helgi!
Guðbjörg Gunnarsdóttir
Mannauðsstjóri