Fréttir : Forsíða » Föstudagsmolar 4. Júlí 2025 – Af starfi Vísindaráðs

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Hér koma föstudagsmolar vikunnar en gestahöfundur að þessu sinni er Sóley Guðrún Þráinsdóttir fráfarandi formaður vísindaráðs Reykalundar, sem gefur okkur góða innsýn í starf ráðsins.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur


 

Heil og sæl kæra samstarfsfólk!

Þegar Pétur bað mig að skrifa stutt yfirlit yfir starfsemi vísindaráðs árið 2024-25 fyrir föstudagsmolana, hugsaði ég að enginn nenni að lesa það núna þegar við erum  að detta í langþráð sumarfrí og margir þegar farnir í frí. En um leið og ég óska ykkur öllum gleðilegs sumarfrís, langar mig að minna á hversu ótrúlegt það er að á Reykjalundi skuli vera stundað vísindastarf í því magni og gæðum sem raun ber vitni. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því þegar ég byrjaði að vinna á Reykjalundi fyrir tæpum fimm árum síðan.  Það sem af er árinu er búið að ljúka þremur meistaranámsverkefnum og þremur BS verkefnum og ein grein hefur verið birt  í erlendu, ritrýndu tímariti. Frá árinu 2001 er búið að ljúka 60 meistaranámsverkefnum, 29 BS verkefnum, einu doktorsverkefni og 26 ritrýndum greinum.

Ég vona að þið náið að hvíla ykkur vel og hlaða batteríin í fríinu fyrir komandi vetur. Mér finnst best að næra sálina og hlaða mín batterí í náttúrunni, hvort sem það er á fjöllum, hjólastígnum eða golfvellinum en allir hafa sína aðferð. Meðfylgjandi mynd er tekin á Hornbjargi á Hornströndum, þangað sem ég fór með systir minni í fjögurra daga gönguferð í júlí í fyrra.

 

Yfirlit yfir starfsemi vísindaráðs Reykjalundar 2024–2025.

Skipan ráðsins

Frá júlí 2024 sátu eftirfarandi aðilar í vísindaráði:

  • Sóley Guðrún Þráinsdóttir, taugalæknir (formaður)
  • Kristín Hólmgeirsdóttir, sjúkraþjálfari

Með vísindaráði starfar:

  • Marta Guðjónsdóttir, dósent og rannsóknarstjóri (ráðgjafi og ritari)

Starfsemi ráðsins

Vísindaráð er skipað af framkvæmdastjórn og skal vera þverfaglegt með fagaðilum sem hafa sérfræðiþekkingu á meginþáttum endurhæfingar á Reykjalundi. Hver meðlimur vísindaráðs situr 3 ár í ráðinu og gegnir formennsku síðasta árið. Ég er að klára mitt þriðja ár og geng nú úr ráðinu eftir eins árs formennsku. Kristín Hólmgeirsdóttir tekur við sem formaður og munu Jónína Sigurgeirsdóttir, hjúkrunarfræðingur og Guðrún Nína Óskarsdóttir, læknir, nú taka sæti í ráðinu.  Báðar starfa á lungnasviði Reykjalundar.

Vísindaráð hefur verið starfandi frá 2004 og hefur m.a. það hlutverk að vera stjórnendum Reykjalundar ráðgefandi um vísindastefnu Reykjalundar og vinna að framgangi hennar ásamt rannsóknastjóra.

Á starfsárinu 2024–2025 hefur vísindaráð fundað mánaðalega og unnið markvisst að því að efla og styðja við vísindastarf innan Reykjalundar. Árið einkenndist af stefnumótandi umræðum um mikilvægi vísindastarfs í klínísku samhengi og framtíðarsýn vísindasjóðs. Einnig var unnið að endurskipulagningu á gæðaskjölum og matstækjum, áframhaldandi samstarfi við háskólasamfélagið og komandi mannabreytingum í vísindaráði.

Til umfjöllunar hafa verið þau matstæki sem notuð eru í klínísku starfi og rannsóknum en mikilvægt er að gætt sé samræmis í vali á matstækjum og að vinnubrögð séu stöðluð. Vísindaráð fór einnig yfir stöðu gæðaskjala tengdum ráðinu og vísindasjóði. Ráðið einfaldaði, samræmdi og uppfærði eldri skjöl og  síðan voru þau flutt í CCQ-gæðakerfið með aðstoð Berglindar gæðastjóra.  Þessi vinna heldur áfram með haustinu.

Einnig hefur vísindaráð unnið að tengslum og samstarfi við aðrar stofnanir og er Reykjalundur nú í samstarfi við Háskóla Íslands, Háskólann á Akureyri og Háskólann í Reykjavík. Samstarfssamningar Reykjalundar við tvo fyrrnefndu háskólana er að finna á heimasíðu Reykjalundar https://reykjalundur.is/visindi-og-kennsla/kennsla/. Margir nemar hinna ýmsu fagstétta hafa unnið sín nemendaverkefni á Reykjalundi og hafa sum verið birt í vísindatímaritum. Á heimasíðu Reykjalundar má sjá hin fjölbreyttu rannsóknarverkefni nema og starfsmanna í vinnslu https://reykjalundur.is/visindi-og-kennsla/rannsoknaverkefni-i-vinnslu/ og birtingar greina https://www.reykjalundur.is/visindi-og-kennsla/birtingar/  undir Vísindi og kennsla.

 

Vísindadagur

Vísindadagur Reykjalundar var haldinn í 21. skipti þann 14. nóvember 2024. Skipulag dagsins var sambærilegt fyrri árum: Dagskráin hófst kl. 12.30 með setningarræðu formanns. Síðan voru flutt fimm áhugaverð erindi af starfsmönnum og samstarfsfólki sem  endaði með ágætis umræðum og var lokið kl. 14.45. Fundarstjóri var Marta Guðjónsdóttir, rannsóknarstjóri. Kaffihlé var gert í miðri dagskrá og síðan boðið upp á  léttar veitingar að dagsskrá lokinni. Þátttaka var fremur dræm enda ekki gert hlé á meðferðarstarfseminni eftir hádegi. Alls voru 44 skráðir á vísindadaginn, þar af 39 starfsmenn Reykjalundar. Næsti vísindadagur verður haldinn 13. nóv. 2025.

 

Rannsóknarstjóri hættir

Vísindaráð stendur nú frammi fyrir því að missa Mörtu rannsóknarstjóra sem hefur verið ómetanlegur ráðgjafi og stuðningur ráðsins. Marta hættir vegna aldurs í stöðu rannsóknarstjóra í lok febrúar 2026. Það er í höndum framkvæmdastjórnar Reykjalundar að ákveða framhaldið en vísindaráð telur mjög mikilvægt að byrja sem fyrst að leita að eftirmanni Mörtu. Sú þekking og reynsla sem Marta býr yfir af vísindastarfi Reykjalundar þarf að geta nýst nýjum rannsóknarstjóra og gott ef Marta getur sett viðkomandi inn í starfið áður en hún hættir. Tengsl Mörtu við háskólasamfélagið er lykilatriði fyrir vísindavirkni Reykjalundar og væri æskilegt að hinn nýi rannsóknastjóri hefði slík tengsl.

 

Vísindasjóður

Unnið var að því að endurskipuleggja vísindasjóð og tryggja framtíðarfjármögnun. Vísindasjóðurinn sem er ætlaður að styðja við bakið á vísindafólki á Reykjalundi var tómur í mörg ár og því hefur ekki verið hægt að veita styrki úr honum. Nú hefur sjóðnum borist aftur fyrrum úthlutaðir styrkir sem ekki voru nýttir og stendur til að  auglýsa eftir umsóknum styrkja fljótlega eftir sumarfrí. Þessir styrkir kæmu til endur úthlutunar á næsta vísindadegi. Að mati vísindaráðs er þörf á bættu verklagi við eftirfylgni úthlutana, svo að sjóðurinn nýtist sem best við rannsóknastarf Reykjalundar.

 

Lokaorð

Reykjalundur býður upp á alveg einstakt vísindaumhverfi og mikla möguleika til rannsókna á gæðum meðferðarstarfsins. Náin samvinna, hvetjandi handleiðsla og fagmennska einkennir vísindastarfið á Reykjalundi. Hér hefur skapast ákveðin vísindamenning sem gjarnan leiðir af sér nýjar hugmyndir og lausnir sem nýtast Reykjalundi í heild.

Ánægðir nemar sem vinna verkefnin sín hér eru líklegri til að sækja um starf á Reykjalundi síðar og hægt er að halda því fram að vísindavirknin auki aðdráttarafl Reykjalundar bæði sem menntastofnun og vinnustaður. Þannig hefur vísindavirknin jákvæð og uppbyggileg áhrif á rekstur og meðferðarstarf Reykjalundar.

Það hefur verið ánægjulegt og lærdómsríkt að taka þátt í starfi vísindaráðs og óska ég nýju ráði góðs gengis.

Fyrir hönd vísindaráðs,
Sóley Guðrún Þráinsdóttir,
fráfarandi formaður vísindaráðs

 

Skip to content