Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Fyrir flest okkar eru bara fjögurra daga vinnuvikur í þessari viku og þeirri næstu, sem er ágætis æfing fyrir sumarfríin sem framundan eru. Ekki spillir svo góða veðrið fyrir.
„Glöggt er gestsaugað“ segir máltækið og því var áhugavert að fá erlendu úttektaraðilana í heimsókn í síðustu viku þegar hér fór fram ferlið við alþjóðlegu gæðavottunina, CARF. Eins og fram hefur komið voru þetta nákvæmlega 1.720 atriði sem skoðuð voru í starfseminni okkar, allt frá öryggimálum, uppsetning ársreikninga og ferli ræstingar auk beinnar þjónusta við sjúklinga, svo dæmi séu tekin. Tugir starfsmanna voru teknir í viðtöl til að útskýra starfsemina, teymisfundir fagfólks voru metnir og sjúklingar fengnir til að lýsa upplifun sinni og reynslu. Mikill fjöldi skjala var skoðaður og metin (var þýddur með hjálp túlka og/eða gervigreindar) eins og verkferlar, skráningar heilbrigðisupplýsinga, upplýsingar á heimasíðu og fræðsluefni.
Þó við bíðum eftir endanlegri skýrslu úttektarinnar og fókusinn hjá okkur muni án efa fara á þá þætti starfseminnar sem þarf að bæta, er líka áhugavert að við hugsum um hvað við erum að gera vel. Í stuttu máli er langsamlega stærstur hluti starfseminnar sem við erum að gera alveg glæsilega vel. Í mínu starfi sem forstjóri finnst mér mjög mikilvægt að gefa mér reglulega tíma til að spjalla við skjólstæðinga okkar, sjúklinga og aðstandendur og fá þannig beint í æð hvernig fólk er að upplifa Reykjalund; hvað gengur vel og hvað mætti betur fara. Mig langar að nefna tvö jákvæð dæmi sem tengjast kannski ekki beinni heilbrigðisþjónustu en eru samt gríðarlega mikilvæg. Erlendu úttektaraðilarnir nefndu sem dæmi að algengasta kvörtun sem til þeirra bærist í úttektum væru kvartanir frá sjúklingum og starfsfólki yfir matnum sem boðið væri upp á. Þau höfðu sérstaklega á orði að hjá okkur hefði þetta atriði aldrei verið nefnt sem kvörtun og þvert á móti hefði fólk í óspurðum fréttum verið að hrósa matnum. Sannarlega skemmtileg rós í hnappagatið hjá eldhússtarfsfólkinu okkar.
Annað atriði sem oft er nefnt í mín eyru er móttakan okkar. Þær Ester og Tinna sem þar starfa gegna gríðarlega miklu hlutverki og geta haft mikil áhrif á upplifun þeirra sem þurfa að nýta sér þjónustu okkar. Líklega margir sem átta sig ekki á þessu. Það er mjög mikilvægt þegar fólk kemur inn á Reykjalund að það fái jákvætt, vinalegt og þjónustulundað viðmót, ekki síst sem fyrsti snertiflötur viðkomandi einstaklings við Reykjalund. Það geta oft verið þung skref fyrir skjólstæðinga og sjúklinga okkar að stíga inn í húsið (ekki síst í fyrsta skiptið) og koma í þjónustuna, þessu fylgir oft mikill kvíði og vanlíðan. Móttökurnar sem viðkomandi fær hafa því mikil áhrif og því er ánægjulegt hve þeim Ester og Tinnu er oft hrósað fyrir jákvæðni og taka vel á móti fólkinu okkar. Þær eiga sannarlega hrós skilið.
Það er vel við hæfi að myndirnar með molunum í dag séu af hluta starfsfólks eldhússins okkar og þeim Tinnu og Ester í móttökunni.
Sumir „lífsgæðasérfræðingar“ hvetja okkur til að hugsa um þrjá jákvæða hluti í lífinu á hverjum degi. Þannig temjum við hugann í jákvæðni frekar en neikvæðni og tengjumst betur því góða í lífinu í kringum okkur og förum að taka betur eftir því.
Um leið og ég óska ykkur góðrar helgar og gleðilegrar þjóðhátíðar á þriðjudag, vil ég hvetja ykkur til að hugsa með sjálfum ykkur um þrjá góða hluti í Reykjalundarlífnu og fara með það veganesti inn í helgina.
Bestu kveðjur,
Pétur