ReDO®

Redesigning Daily Occupation

Redesigning Daily Occupations (ReDO®) er hópíhlutun sem byggir á iðjuþjálfun. Íhlutunin er hönnuð fyrir fólk sem þarf og vill breyta iðjumynstri sínu til bættrar heilsu. ReDO® nýtist fólki sem hefur getu og aðstæður til að gera breytingar á daglegri iðju. Einstaklingar sem ekki eru tilbúnir til að takast á við daglega iðju á nýjum forsendum ættu ekki að taka þátt í ReDO®.

Íhlutunin miðar að því að gera fólki fært að endurheimta heilsu og, þar sem á við, snúa aftur til vinnu/skóla eða í aðra virkni. Með ReDO® hefst ferli til að endurskipuleggja daglega iðju í átt að heilbrigðara jafnvægi í daglegu lífi.
ReDO® íhlutunin byggir á að allar daglegar athafnir geti hugsanlega orsakað streitu eða veikindi. Megináherslan er að hver og einn finni iðjumynstur sem eflir heilsu.

Markmiðið með ReDO® er að:

  • Gefa þátttakendum verkfæri til að skoða og greina eigin iðju, bera kennsl á styrkleika og veikleika, sem og að setja sér markmið og gera áætlanir um breytingar.
  • Auka skilning þátttakenda á þeim krafti sem felst í því að framkvæma daglega iðju, miðla nýjum hugtökum og orðum svo þátttakendur geti sjálfir skilið og útskýrt hvernig dagleg iðja hefur áhrif á heilsu þeirra.
  • Þátttakendur tileinki sér nýja þekkingu og verkfæri til að öðlast stjórn á daglegri iðju. Markmiðið með ReDO® er því varanleg færni til að breyta og viðhalda heilsu til lengri tíma.
  • Gefa hverjum þátttakenda stuðning og verkfæri til að miðla eigin þörfum, markmiðum og áætlunum til t.d. vinnuveitenda, lækna, fjölskyldu og vina.

ReDO® íhlutunin er byggð upp í þremur áföngum og nær yfir 16 vikna tímabil.

Áfangi 1 (5 vikur): GREINING Á DAGLEGU LÍFI
Tilgangur þessa fyrsta áfanga er að kynna og nota mismunandi verkfæri til að greina eigið daglegt líf og bera kennsl á hindranir og bjargráð. Í þessum áfanga byrja þátttakendur einnig að móta markmið um breytingar án þess að skilyrða þau. Hópurinn hittist 2x í viku eftir hádegi í fimm vikur, 2 klst. í senn.

Áfangi 2 (5 vikur): STEFNUMÖRKUN OG MARKMIÐ FYRIR BREYTINGAR Á DAGLEGU LÍFI
Tilgangur þessa áfanga er að þátttakendur móti áætlanir til að komast nær breytingarmarkmiðum sínum og geti breytt í samræmi við undirmarkmiðin sem skilgreina þau. Þátttakendur eiga einnig að skoða atriði sem tengjast vinnustaðnum/skólanum eða sínu virkniumhverfi og þeim verkefnum sem þeir sinna þar til að undirbúa virkniþjálfunina sem á sér stað í áfanga þrjú. Í þessum áfanga hittist hópurinn 2x í viku, fyrir hádegi í 2 klst. í senn.

Áfangi 3 (6 vikur): AÐLÖGUN BREYTINGA INN Í DAGLEGT LÍF
Í þessum áfanga æfa þátttakendur sig á sínum vinnustað/skóla eða virkniumhverfi. Þetta er tækifæri fyrir þátttakendur til að aðlaga áætlanirnar sínar að daglegu lífi. Umfang virkniþjálfunarinnar er hannað af viðkomandi þátttakenda í samráði við t.d. leiðbeinanda íhlutunar og aðra sem koma að ferlinu. Hópfundirnir eru þrír talsins.

Hagkvæmnirannsókn á innleiðingu ReDO®-16 á Íslandi hófst á Reykjalundi í maí 2023 og hefur leyfi frá Vísindasiðanefnd. Ábyrgðarmaður er Hildur Thors læknir á Reykjalundi. Sjá nánar: https://www.reykjalundur.is/visindi-og-kennsla/rannsoknaverkefni-i-vinnslu/innleiding-redo-a-islandi