Verkjateymi
Í verkjateyminu fer fram endurhæfing fólks með langvinnan verkjavanda og eru stoðkerfisverkir algengastir en einnig verkir vegna annarra eða óþekktra orsaka.
Endurhæfingin miðar að því að hjálpa fólki að finna leiðir til að lifa með verkjum á sem bestan hátt. Markmið meðferðar er að bæta andlega, líkamlega og félagslega færni fólks. Auka verkjaþol, vellíðan og þátttöku í daglegu lífi til að fólk geti lifað innihaldsríku lífi þrátt fyrir verki. Mikilvægt er að einstaklingurinn sé tilbúinn til að leggja sig fram, læra og tileinka sér nýjar aðferðir og leiðir til að takast á við verki.
Heimilislæknir sækir um verkjameðferð á Reykjalundi.
Fljótlega eftir að beiðni berst til verkjateymis, fær viðkomandi bréf, þar sem honum er meðal annars boðið að koma á kynningar- og fræðslufund fyrir sjúklinga á biðlista verkjateymis. Markmiðið er að upplýsa sjúklinga um hugmyndafræði þeirrar endurhæfingar sem hér fer fram og undirbúa þá með fræðslu og hvatningu til að byrja að taka á sínum málum sem fyrst. Aðstandendur eru einnig velkomnir á þessa fundi en þar er auk fræðslu kynnt starfsemi verkjateymis.
Fljótlega eftir kynningarfund fær viðkomandi boð í endurhæfingarmat sem er fimm daga greining á vanda, auk þess sem lögð eru upp markmið og meðferðaráætlun. Í lok endurhæfingarmatsdaga er tekin ákvörðun um innlögn, sem er yfirleitt 6-8 vikum síðar.
Meðferð á verkjasviði nær að öllu jöfnu yfir 4-5 vikna tímabil. Eftirfylgd er einstaklingsbundin og fer eftir þörfum hvers og eins.
Einstaklinga með þrálát verkjavandamál. Fyrst og fremst vegna stoðkerfisverkja en einnig verkja án þekktra orsaka.
- ACT
- Göngur
- Iðjuþjálfun
- Jafnvægi í daglegu lífi
- Leikfimihópar
- Lífsstílsráðgjöf
- Sjúkraþjálfun
- Slökun
- Vatnsleikfimi
- Verkjaskóli
Félagsráðgjöf og sálfræðiþjónusta eftir þörfum
Ef þú hefur spurning um biðlista eða annað tengt verkjasviði getur þú haft samband á Reykjalund og fyrirspurnum verður svarað eins fljótt og hægt er af hjúkrunarstjóra verkjasviðs, Ernu Bjargeyju Jóhannsdóttur.
Bakið þitt (pdf)
10 atriði sem þú þarft að vita um bakið þitt