Efnaskipta- og offituteymi

Efnaskipta- og offituteymi hefur verið starfrækt frá árinu 2001 á Reykjalundi. Teymið sinnir meðferð einstaklinga með alvarlega offitu og fylgikvilla hennar. Meðferðin er í stöðugri þróun í takt við samfélagið og þarfir hverju sinni í samræmi við nýjustu rannsóknir og klínískar leiðbeiningar.

Markmið teymisins er að bæta heilsu og lífsgæði einstaklinga með offitu og unnið er markvisst að því að hjálpa einstaklingum að bæta lífshætti sína, líðan og neysluvenjur.

Beiðni send og sett á biðlista
Læknir sendir beiðni á efnaskipta- og offituteymi Reykjalundar.
Þegar beiðni hefur verið samþykkt fer hún á biðlista teymisins og fær þá viðkomandi skilaboð á heilsuveru þess efnis.

Skráningarmiðstöð og matsviðtöl
Þegar líða fer að endurhæfingu er viðkomandi boðaður á skráningarmiðstöð þar sem spurningalisti er lagður fyrir og gerðar mælingar á hæð, þyngd og blóðþrýstingi.
Aðrir spurningalistar sem teymið nýtir einnig eru sendir nokkru áður til útfyllingar og er skilað útprentuðum til hjúkrunarfræðings teymisins.
Í framhaldi eru matsviðtöl hjá lækni, hjúkrunarfræðingi og næringarfræðingi.
Gerðar eru líkamsmælingar og leiðnimælingar til að meta líkamssamsetningu og grunnefnaskiptahraða.

Matsvika
Í kjölfar matsviðtals er einstaklingur fljótlega boðaður í matsviku sem er hópmeðferð. Þar er boðið upp á fræðslu, hreyfingu, svengdarvitundarnámskeið, markmiðasetningu og næstu skref meðferðar kortlögð.

Göngudeildarmeðferð
Göngudeildarmeðferð tekur við af matsviku og er einstaklingsmeðferð í formi viðtala (auk HAM námskeiða ef þörf er á) þar sem unnið er með næringu, hreyfingu, virkni, félagslega og andlega þætti. Lengd göngudeildarmeðferðar er einstaklingsbundin.

Dagdeildarmeðferð
Dagdeildarmeðferðin felur í sér meðferð í fjórar vikur á dagvinnutíma. Möguleiki er á að dreifa þeim sem best hentar hverjum og einum ef þörf krefur.
Skilyrði fyrir dagdeildarmeðferð er að einstaklingur hafi sýnt að hann sé tilbúinn til að vinna að nauðsynlegum lífsstílsbreytingum, hafi þegar náð að gera gagnlegar breytingar og að hreyfing sé reglubundin. Dagdeildarmeðferð er skjólstæðingum að kostnaðarlausu en greiða þarf fyrir göngudeildarmeðferð.

Eftirfylgd
Við lok fjögurra vikna meðferðar eru fjórar hálfs dags endurkomur á föstudegi. Tilgangurinn er að veita áframhaldandi stuðning og fylgjast með árangri meðferðarinnar. Í þessum endurkomum er boðið upp á fræðslu ásamt hreyfingu og viðtöl ef svo ber undir. Lögð er rík áhersla á mætingu og ef um forföll er að ræða fær viðkomandi bókaðan nýjan tíma. Göngudeildarstuðningur stendur einnig til boða fram að endanlegri útskrift.

Efnaskipta- og offituaðgerðir
Það er metið í hverju tilfelli fyrir sig hvort einstaklingur uppfylli skilyrði fyrir að gangast undir slíka aðgerð og á hvaða stigi meðferðar beiðni er send Landspítala. Einstaklingi er fylgt eftir á Reykjalundi þar til að aðgerð kemur.

Efnaskipta- og offituteymi Reykjalundar sinnir einstaklingum með alvarlega offitu og fylgikvilla hennar.

Skilyrði fyrir offitumeðferð á Reykjalundi

  • Tilvísun frá lækni
  • Aldur 18-65 ára
  • Offitusjúkdóm líkamsþyngdarstuðull/BMI  >35 auk fylgikvilla eða LÞS/BMI > 40
  • Að viðkomandi hafi áhuga á og geti nýtt sér meðferðina
  • Að ekki sé um virkan áfengis- eða fíkniefnavanda að ræða
  • Reykleysi

Meðferðin felst í atferlismeðferð, fræðslu, kennslu um næringu, hreyfingu og góðar venjur. Líkamleg þjálfun skipar stóran sess í meðferðinni. Unnið er með sjálfsstyrkingu, sálfélagslega þætti, slökun og skipulag daglegs lífs.

Bæði er um hefðbundna dagdeildarmeðferð að ræða en auk þess er öflug göngudeildarmeðferð fyrir skjólstæðinga teymisins bæði fyrir og eftir dagdeildarmeðferðina. Skipulögð eftirfylgd er í boði í a.m.k. fjóra mánuði eftir meðferðina.

Móttaka Reykjalundar er í síma 585-2000