Langvinn Covid einkenni

Einkenni, líkamlegt ástand og mat á árangri þverfaglegrar endurhæfingar hjá einstaklingum með langvinn sjúkdómseinkenni eftir COVID-19
Ábyrgðarmaður: Karl Kristjánsson yfirlæknir Reykjalundi

Markmið rannsóknarinnar er að lýsa þeim hópi sem vísað er til endurhæfingar á Reykjalundi vegna langvinnra og hamlandi einkenna eftir COVID-19 sýkingu. Kannað verður hvaða áhrif þverfagleg endurhæfingarmeðferð hefur á:

            # þol og styrk
            # þreytueinkenni
            # mæði
            # andlega líðan, þ.e. kvíða og depurð
            # almenn lífsgæði (heilsu)
            # vinnufærni

Kannað verður hvort flokka megi einkennamynd sjúklinga í ákveðna hópa, sem geti gefið vísbendingu um hvort og þá hvernig endurhæfing komi að mestu gagni í hverju tilviki. Eins að bera saman einkenni, líkamlegt og andlegt ástand og félagslega stöðu þeirra sem fara mismunandi meðferðaleiðir (leið A og B) og árangur meðferðar. Um er að ræða áhorfsrannsókn þar sem þátttakendum verður fylgd eftir í endurhæfingarmeðferð, sem getur verið tvenns konar, leið A og B. Við upphaf meðferðar, eftir 6 vikur og 7,5 mánuðum eftir upphaf hennar, eru gerðar ýmsar rannsóknir og lögð fyrir matstæki til að meta þá þætti sem eru til skoðunar.

Framskyggn rannsókn

Þátttakendur verða allir þeir sem koma til endurhæfingar á Reykjalundi vegna langvinnra einkenna eftir COVID-19 veikindi og samþykkja þátttöku, frá 1. febrúar 2021  - 31. desember 2021. Um er að ræða nýjan sjúkdóm sem veldur langvinnum sjúkdómseinkennum hjá verulegum hluta þeirra sem sýkjast. Það er því ekki ljóst hversu vel þessi hópur svarar endurhæfingarmeðferð og einnig hvort árangur endurhæfingarinnar er mismunandi eftir sjúkdómseinkennum.

Leyfi vísindasiðanefndar: 19. janúar 2021 / VSNb2021010009/03.01

Afturskyggn rannsókn

Þátttakendur verða allir þeir sjúklingar sem vísað var til endurhæfingar á Reykjalundi vegna langvarandi einkenna eftir COVID-19 veikindi, uppfylla þátttökuskilyrði og komu til endurhæfingar á tímabilinu 1. maí 2020 – 19. janúar 2021. Sömu gögnum er safnað í afturskyggna hlutanum og þeim framskyggna

Leyfi vísindasiðanefndar: 6. september 2022/ VSNb2022080025/03.01