Mat á þolprófum
Mat á þremur þolprófum sem notuð eru í lungnaendurhæfingu. Afturvirk rannsókn.
Ábyrgðarmaður: Dr. Marta Guðjónsdóttir lífeðlisfræðingur og rannsóknastjóri.
Markmið rannsóknarinnar er að meta hvaða þolpróf af þeim þremur, sem notuð hafa verið í endurhæfingu lungnasjúklinga á Reykjalundi, er næmast á breytingar í þoli hjá sjúklingum með lungnateppu. Einnig hvort prófin séu misnæm á breytingar eftir kyni, stigi lungnateppunnar, þoli við upphaf endurhæfingar, súrefnisfalli við áreynslu, holdafari og andlegri líðan. Prófin þrjú sem um ræðir eru: Hámarksþolpróf, sex mínútna göngupróf og úthaldspróf sem öll hafa verið metin með tilliti til réttmæti og áreiðanleika. Rannsóknin er gagnarannsókn þar sem gögnum um þolpróf sjúklinga með teppu verður safnað frá 1994 til leyfisdags. Alls eru til niðurstöður þolprófa fyrir um 3500 sjúklinga sem farið hafa í lungnaendurhæfingu á tímabilinu og gera má ráð fyrir að 70% af þeim uppfylli inntökuskilyrðin í rannsóknina sem eru:
- Teppa á öndunarmælingu við upphaf endurhæfingar (FEV1/FVC < 0,7)
- Tóku þátt í lungnaendurhæfingu 5 daga vikunnar í að minnsta kosti 4 vikur
- Luku við eitt af þremur mögulegum þolprófum fyrir og eftir endurhæfinguna.
Tvær mikilvægar forsendur eru fyrir gildi þessarar afturvirku gagnarannsóknar. Sú fyrri er hversu þolþjálfunin í lungnaendurhæfingunni á Reykjalundi hefur haldist lítið breytt, þannig að forsendur fyrir bættu þoli eru mjög áþekkar í dag og þær voru árið 1994. Sú seinni er hversu vönduð gögnin eru, þar sem öll prófin hafa verið tekin af starfsmönnum hjarta- og lungnarannsóknarstofu Reykjalundar með mjög stöðluðum hætti.