Háþrýstingur og útiganga
Áhrif kulda og vetrarveðurs í gönguþjálfun á blóðþrýsting, hjartslátt og mæði, hjá einstaklingum með háþrýsting og/eða hjartasjúkdóm.
Ábyrgðarmaður: Dr. Karl Kristjánsson yfirlæknir hjartateymis og lektor við Læknadeild Háskóla Íslands.
Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvort svörun við gönguþjálfun utandyra að vetrarlagi á mæði, blóðþrýsting, hjartslátt og hjartsláttartruflanir, séu frábrugðin því sem verður við sambærilega áreynslu innandyra hjá sjúklingum með háþrýsting og/eða kransæðasjúkdóma.
Þátttakendur í rannsókninni verða 10-12 sjúklingar í endurhæfingu á Reykjalundi, sem greindir hafa verið meðháþrýsting og/eða hjartasjúkdóm. Þeir taka þátt í alhliða þjálfun, m.a. gönguþjálfun utandyra bæði sumar og vetur.
Áhrif kulda og vetrarveðurs á blóðþrýsting, hjarta og blóðrás hafa talsvert mikið verið rannsökuð og þá mest hjá heilbrigðum einstaklingum. Minna er þekkt hvaða áhrif kuldi hefur á einstaklinga með hjartasjúkdóma. Það að vera í köldu umhverfi hækkar blóðþrýsting, sérstaklega hjá þeim sem hafa greindan háþrýsting. Kuldi virðist einnig geta ýtt undir hjartsláttaróreglu, sérstaklega hjá þeim einstaklingum sem hafa hjartabilun og meiri áhættu á hjartsláttartruflunum.
Ekki eru þekkt nein dæmi þess hingað til að útigöngur á Reykjalundi hafi valdið alvarlegri hjartsláttaróreglu, en ekki hefur áður verið mögulegt að fylgjast með blóðþrýstingi eða hjartslætti sjúklinga við slíkar aðstæður.
Upphaf rannsóknar: 2022