Endurhæfing og lungnakrabbamein

Árangur endurhæfingar skjólstæðinga sem hafa farið í skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins.

Ábyrgðarmaður: Guðrún Nína Óskarsdóttir yfirlæknir í lungnateymi Reykjalundar 

Lungnakrabbamein er meðal algengustu krabbameina á Íslandi en um 40% sjúklinga sem fá lungnakrabbamein gangast undir skurðaðgerð í læknandi tilgangi. Í ákveðnum tilvikum fara þessir sjúklingar í endurhæfingu á Reykjalundi eftir skurðaðgerðina.

Markmið rannsóknarinnar er að skoða árangur endurhæfingar eftir skurðaðgerð við lungnakrabbameini á Íslandi. Rannsóknin er afturskyggn og nær til þeirra sjúklinga sem hafa þegið endurhæfingu á Reykjalundi eftir skurðaðgerð vegna lungnakrabbameins frá 1990 til 2023. Við erum í samstarfi við lungnakrabbameinsrannsóknarhóp á Landspítala og stefnt er að því að fá aðgang að þeim gagnagrunni sem er til þar um árangur eftir skurðaðgerðir við lungnakrabbameini á Íslandi. Stefnt er að því að skoða sérstaklega hámarksþolpróf sem hafa verið gerð bæði á LSH og Reykjalundi og bera saman ýmis gildi þar fyrir og eftir skurðaðgerð en einnig úthaldspróf fyrir og eftir endurhæfingu hjá þeim sem hafa farið í það. Við munum einnig skoða spurningalista og aðrar breytur sem eru alltaf skoðaðar í tengslum við endurhæfingu, svo sem spurningalista um þunglyndi og kvíða sem og mæði.

Hér verðum við með þýði fyrir heila þjóð um árangur lungnaendurhæfingar eftir lungnakrabbameinsskurðaðgerð. Við höfum leitað en ekki fundið slíkum hópi lýst áður með tilliti til skammtíma og langtíma árangurs. Við viljum bæði skoða einstaka þætti í endurhæfingu en einnig til dæmis lifun miðað við sjúklinga sem ekki fara í endurhæfingu.

Upphaf rannsóknar: 2025

Leyfi vísindasiðanefndar: VSN2410031