Endurhæfing

Hjálp til sjálfshjálpar

InngangurMikil áhersla er lögð á fræðslu og þátttöku sjúklings í sinni endurhæfingu. Endurhæfing er hjálp til sjálfshjálpar. Lögð er áhersla á grunnþætti heilbrigðs lífs, heilsusamlegt mataræði, reykleysi, hæfilega hreyfingu og góðan svefn. Markmið endurhæfingarinnar er að bæta líðan og lífsgæði sjúklings og getu hans til að nýta sér ýmis bjargráð sem honum eru kennd. Lokatakmarkið er að sjúklingurinn eigi sitt sjálfstæða líf, hafi sjálfsákvörðunarrétt yfir því og sé virkur þátttakandi í samfélaginu.

Einstaklingsmiðuð meðferð

Endurhæfing er teymisvinna en einstaklingsmiðuð fyrir hvern sjúkling. Huga þarf að mörgu þegar markmiðið er að auka færni, virkni og þátttöku sjúklings í lífi og starfi og bæta lífsgæði hans. Í meðferðinni þarf m.a. að taka mið af persónulegum þáttum sjúklings (m.a. menntun, fjölskylduhögum, menningu, kyni) svo og umhverfisþáttum (meðal annars búsetu, samfélagi).

Þverfagleg teymisvinna

Starfsemin á Reykjalundi byggir á þessari hugmyndafræði. Hún er þverfagleg og fer fram í teymum. Sérþekking er innan hvers teymis sem byggir á grunnsjúkdómum þess sjúklingahóps sem verið er að endurhæfa. Þar sem færniskerðing af völdum sjúkdóma eða slysa er langt í frá sjúkdómabundin er mörgum meðferðarúrræðum beitt þvert á teymin.

Læknisfræðileg endurhæfing

Læknisfræðileg endurhæfing er sérhæfð meðferð sem byggir á þeirri hugmyndafræði að taka heildrænt á afleiðingum sjúkdóma og slysa. Auk þess að hafa þekkingu til þess að sjúkdómsgreina eru fagmenn í endurhæfingu með sérþekkingu í að meta skerðingu á færni, virkni og þátttöku fólks í lífi og starfi. Endurhæfing er tímatakmörkuð meðferð. Hún byggir á samvinnu margra fagaðila, sjúklings og hans nánustu eftir atvikum. Beitt er sál-, líkamlegum- og félagslegum aðferðum (biopsychosocial), með það að markmiði að uppræta, minnka eða bæta fyrir skerðingu í færni og virkni sem sjúkdómur eða slys hafa valdið.