Kennsla
Reykjalundur gegnir mikilvægu hlutverki í kennslu og þjálfun nemenda í félags- og heilbrigðisvísindum. Á Reykjalundi starfa margir faghópar og teymisvinna er þar hornsteinninn í vinnulaginu sem gerir stofnunina eftirsóknarverða fyrir verknám og rannsóknir.
Samningar eru í gildi um samstarf Reykjalundar á þessum vettvangi við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík og Háskólann á Akureyri. Nemendur hafa þó komið frá fleiri skólum, bæði innlendum sem erlendum.
Í gegnum tíðina hafa fjölmargir nemendur komið í verknám á Reykjalundi í sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, hjúkrunarfræði, sjúkraliðanámi, félagsráðgjöf, sálfræði, næringarráðgjöf, talmeinafræði og heilsuþjálfun. Námsdvölin og verkefnin eru mismunandi eftir fagi og námsstigi.
Margir nemendur hafa unnið rannsóknarverkefni sín á Reykjalundi sem hluta af grunn- eða framhaldsnámi við háskóla. Reglan er sú að ábyrgðamaður rannsóknarinnar og leiðbeinandi eru starfsmenn Reykjalundar, en umsjónarkennari er akademískur starfsmaður háskólans.
Gott samstarf Reykjalundar við menntastofnanir er hagur allra og mikilvægt í uppbyggingu á þekkingu og reynslu framtíðarstarfsmanna í félags- og heilbrigðisvísindum á Íslandi.