Persónuvernd

Ný lög um persónuvernd og vinnslu persónuuplýsinga tóku gildi þann 15. júlí 2018. Tilgangur laganna er að stuðla að því að farið sé með persónuupplýsingar í samræmi við grundvallarsjónarmið og reglur um persónuvernd og friðhelgi einkalífs og með lögunum eru eldri lög samræmd persónuverndarreglugerð Evrópusambandsins frá 25. maí 2018.

Persónuvernd skiptir máli í allri starfsemi Reykjalundar og felur meðal annars í sér að starfsfólk virðir friðhelgi einkalífs allra skjólstæðinga Reykjalundar, starfsfólks, nema og annarra. Reykjalundi ber samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu að skrá og vinna ýmsar persónu- og heilsufarsupplýsingar til að geta veitt góða þjónustu og sinnt lögboðnu hlutverki sínu. Rík áhersla er lögð á að við meðferð persónuupplýsinga sé þagnarskylda og friðhelgi einkalífs virt og að upplýsingar séu varðveittar á öruggan hátt.

Í persónuverndarstefnu Reykjalundar kemur fram í hvaða tilgangi upplýsingum er safnað frá sjúklingum, starfsfólki, nemum eða öðrum, hvaða upplýsingum er safnað, hver réttur einstaklinga er gagnvart eigin upplýsingum og varðveislu þeirra, hvert upplýsingum er miðlað og hvernig öryggis þeirra er gætt í starfseminni.

Persónuverndarstefna – almenn (pdf)

Persónuverndarstefna - starfsmenn (pdf)

Persónuverndarfulltrúi Reykjalundar er Gunnhildur Erla Kristjánsdóttir

Fræðsla vegna notkunar eftirlitsmyndavéla á Reykjalundi

[Að neðan er listi yfir atriði sem einkum getur þurft að upplýsa skráða einstaklinga um í tengslum við rafræna vöktun. Vakin er athygli á því að við sérstakar aðstæður getur þurft að upplýsa um fleiri atriði tengd slíkri vinnslu, sbr. nánar upptalningu í 13. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679.]

Ábyrgðaraðili vöktunarinnar er: Reykjalundur endurhæfing ehf., reykjalundur[hjá]reykjalundur.is

Persónuverndarfulltrúi: personuvernd[hjá]samtok.is

Tilgangur vöktunarinnar: Í öryggis- og eignavörsluskyni.

Heimild til vinnslu: Vöktun fer fram til að gæta lögmætra hagsmuna Reykjalundar endurhæfingar ehf. og/eða þriðja aðila af öryggis- og eignavörslu og byggir vinnslan því á 6. tl. 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá ber Reykjalundi endurhæfingu ehf. jafnframt að tryggja öryggi við laugargæslu í samræmi við lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum. Byggir sú vinnsla því á 3. tl. 9. gr. laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga

Tegundir persónuupplýsinga: Unnið er með myndefni sem verður til við vöktunina þar sem sjá má einstaklinga sem farið hafa um hið vaktaða svæði og athafnir þeirra.

Viðtakendur: Allt myndefni er aðgengilegt vinnsluaðilanum Öryggismiðstöð Íslands ehf. sem hefur umsjón með framkvæmd vöktunarinnar. Efni með upplýsingum um slys eða refsiverðan verknað getur jafnframt verið afhent lögreglu. Einnig getur efni verið afhent tryggingafélagi sé það nauðsynlegt vegna tryggingamáls. Sjá að öðru leyti 5. og 10. gr. reglna nr. 50/2023 um rafræna vöktun. Starfsmenn sem sinna laugargæslu á Reykjalundi hafa aðgang að sjónvarpsvöktun til að tryggja eftirlit og yfirsýn yfir alla hluta laugarinnar.

Varðveislutími myndefnis: Myndefni úr eftirlitskerfi utanhúss og í móttöku Reykjalundar er varðveitt í 30 daga, myndefni úr eftirlitskerfi sundlaugar og íþróttahúss er varðveitt í 30 daga og er síðan eytt. Þó geta upptökur verið varðveittar lengur sé það nauðsynlegt til að krafa verði afmörkuð, sett fram eða varin vegna dómsmáls eða annarra slíkra laganauðsynja. Ef myndefni er afhent lögreglu er öðrum eintökum af efninu eytt. Sjá að öðru leyti 2. tölul. 2. mgr. 5. gr. og 11. gr. reglna nr. 50/2023 um rafræna vöktun.

Réttindi einstaklinga: Þú átt rétt á að skoða myndefni þar sem þú sést. Einnig áttu rétt á að fá afrit af slíku myndefni að því gefnu að það skerði ekki réttindi og frelsi annarra. Að öðru leyti fer um réttindi þín samkvæmt III. kafla laga nr. 90/2018 um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, sbr. nánar ákvæði í III. kafla reglugerðar (ESB) 2016/679.

Réttur til að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd: Þeir sem sæta rafrænni vöktun eiga rétt á að leggja fram kvörtun hjá Persónuvernd ef þeir telja að vinnsla persónuupplýsinga þeirra gangi gegn persónuverndarlögum.

Vefkökur eru bara notaðar til að tryggja virkni vefsíðunnar. Google analytics er notað til vefmælinga. Engum persónugreinanlegum upplýsingum er safnað með vefkökum.