Föstudagsmolar forstjóra 11. apríl 2025.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Regluleg sjálfskoðun holl og nauðsynleg.
Eins og fram hefur komið, fer mikið púður þessa dagana og næstu vikur í undirbúning fyrir alþjóðlegu CARF-gæðavottunina en formleg úttekt fer fram á starfsemi Reykjalundar í byrjun júní. Í þessari vottun er allt skoðað og metið, ekki bara faglegt starf heldur einnig starf stoðdeilda eins og fjöldi ferla varðandi mannauðsmál, fjármálastjórnun og gæðamál svo dæmi séu tekin.
Við sem sitjum í framkvæmdastjórn höfum því verið að fara yfir ýmis mál og uppfæra ýmis skjöl um stefnur og vinnuferla. Slík endurskoðun kallar á ákveðna sjálfsskoðun í leiðinni. Að mínu mati er slík sjálfskoðun holl og nauðsynleg fyrir alla með reglulegum hætti, hvaða störfum sem fólk sinnir. Því vil ég hvetja alla til að gera slíkt hið sama með reglubundnum hætti. Bæði varðandi mann sjálfan sem starfsmann og svo starfseiningarnar sem maður tilheyrir. Þar er dæmi um góðar spurningar til að spyrja sjálfan sig: Í hvað fer tíminn minn í vinnunni? Er eitthvað sem ætti að gera meira af? Eitthvað sem ég ætti að gera minna af? Er eitthvað sem ég gæti gert með öðrum hætti. Sama gildir svo um starfseininguna sem maður tilheyrir. Þetta er líka góður undirbúningur fyrir starfsmannaviðtöl og ætti að gera starfið okkar bæði skemmtilegra og skilvirkara.
Myndabanki í farvatninu.
Áður hefur verið kynnt að við hér á Reykjalundi höfum verið búa til myndabanka úr starfseminni sem hægt er nýta í fræðslu og kynningarstarf. Þegar myndabankinn er tilbúinn verður hann kynntur sérstaklega en þarna verður bæði að finna myndir af einstökum deildum, teymum og starfseiningu en líka fjölda mynda úr daglegu lífi á Reykjalundi, fundarherbergjum, listaverkum og fleiru. Til gamans og sem dæmi koma hér nokkrar myndir úr myndabankanum en eins og áður segir verður þetta kynnt betur þegar allt er tilbúið.
Opnun Miðgarðs um páskana.
Nú styttist í páskahátíðina. Sú breyting verður nú frá fyrri árum að sólarhringsdeildin okkar, Miðgarður, verður opinn um páskana að þessu sinni en þetta er tilraunaverkefni varðandi betri þjónustu og nýtingu. Það eru líklega einhverjir áratugir síðan Miðgarður var opinn síðast um páska svo það verður áhugavert að fylgjast með hvernig gengur. Við sendum góðar kveðjur á Miðgarð.
Þó hér sé starfsemi í næstu viku veit ég að einhverjir stefna á frí í komandi viku. Því er vel við hæfi að hafa páskakveðjuna hér.
Um leið og ég óska öllum gleðilegra páska, vil ég þakka starfsmannafélaginu okkar kærlega fyrir skemmtilega páskasendingu sem barst okkur starfsfólki hér á Reykjalundi í gær.
Ég vona að allir njóti páskanna í faðmi fjölskyldu og vina eða með öðrum hætti sem þið veljið ykkur, hvort sem þið þurfið að standa vaktina að hluta eða fáið algert frí.
Góða helgi og gleðilega páskahátíð!
Pétur
Til baka