Infrarautt gufubað í boði Hollvinasamtakanna.
Í gær var formlega vígt innfrarautt gufubað hér á Reykjalundi en það er staðsett við hlið stærri sundlaugarinnar. Það voru Hollvinasamtök Reykjalundar sem gáfu glæsilegan Infrarauðan gufuklefa sem sérsmíðaður var fyrir okkur. Klefinn tekur 5-7 manns og er vermæti gjafarinnar rúmar þrjár milljónir króna.
Infrarauð gufa notar infrarautt ljós til að hita líkamann beint án þess að hita restina af gufuklefanum. Hitastigið er lægra en í hefðbundinni gufu eða um 55°C og þolist því oft betur. Hún er talin hafa forskot á hefðbundna gufu og heita bakstra til stoðkerfismeðferðar vegna þess að hitinn kemst mun dýpra inn í líkamann eða allt að því 4 cm inn fyrir yfirborð húðar. Meðferðartíminn er 20-30 mín. Helstu áhrif eru talin vera verkjastilling, hraðari endurheimt eftir þjálfun, slökun, aukið blóðflæði, þyngdartap og fleira. Nýja gjöfin á því eftir að nýtast vel hér í starfseminnni.
Meðfylgjandi mynd var tekin við vígsluna í gær en í efri röð frá vinstri eru Júlíus Þór Jónsson formaður Hollvinasamtaka Reykjalundar, Miglena Apostolova sundlaugarvörður og Guðjón Svansson íþrótta- og lýðheilsufulltrúi Mosfellsbæjar. Í neðri röð frá vinstri eru Ágúst Már Jónsson íþróttafræðingur, Pétur Magnússon forstjóri og Óskar Jón Helgason framkvæmdastjóri þjálfunar og ráðgjafar.
Reykjalundur þakkar Hollvinasamtökunum hjartanlega fyrir þessa höfðinglegu gjöf og sendir einnig þakklæti til allra iðnaðarmanna og annar sem komu að smíði klefans.