28.03.2025

Föstudagsmolar forstjóra 28. mars 2025

Frábær árshátíð!

Það er ekki annað hægt en að þakka öllum kærlega fyirr þátttökuna og skemmtunina á Árshátíð Reykjalundar sem fram fór um síðustu helgi í Hlégarði. Þessi hátíð stóð sannarlega undir nafni sem besta partý ársins og fer sennilega í sögubækurnar sem ein af betri árshátíðum Reykjalundarsögunnar. Friðrik Ómar og Jógvan voru veislustjórar og stóðust þeir allar væntingar við að halda uppi stuðinu og heimatilbúin skemmtiatriði starfsfólks komu svo glæsilega inn í skemmtidagskrána. Vil ég nota þetta tækifæri og þakka Kristínu, Gyðu og Magnínu í árshátíðarnefndinni kærlega fyrir sína flottu vinnu og auðvitað öllum þeim sem buðu upp á skemmtiatriðin.

Eins og kynnt var á starfsmannafundinum í vikunni hefur ný árshátíðarnefnd verið skipuð og er þar að finna landsliðsfólk í hverri stöðu: Þau Guðrúnu Bergmann bókara, Ester í móttökunni, Fannar tölvugúru, Ragnheiði í mannausdeild og Hjalta íþróttaálf.

Að lokum er gaman að geta þess að Gullhornið 2025, farandgrip Reykjalundar fyrir besta skemmtiatriðið á árshátíðinni, hlaut læknahópurinn okkar fyrir dúndrandi dans-stuð-myndband. Hjartanlega til hamingju! Mynd af læknahópnum frá árhátíðinni fylgir einmitt með molunum í dag en myndbandið er meðal annars hægt að sjá á Instagram-reikningi Reykjalundar.



Áskoranir í heilbrigðiskerfinu.

Að lokum langar mig að vekja athygli ykkar á SÍBS-blaðinu sem kom út fyrir nokkru. Þar er umfjöllunarefnið að þessu sinni áskoranir í heilbrigðiskerfinu og eru ýmsir aðilar sem fjalla um málið, meðal annars heilbrigðisráðherra. Af mörgum áhugaverðum greinum hefur vakið sérstaka athygli greinin „Mönnun háskólakennara í heilbrigðisvísindum“ eftir Unnui A. Valdimarsdóttur prófessor og forseta Heilbrigðisvísindasviðs, Helgu Bragadóttur prófessor og forseta Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar, Sólveigu Ásu Árnadóttur prófessor og formann námsbrautar í sjúkraþjálfun við Læknadeild og Þórarinn Guðjónsson prófessor og forseta Læknadeildar, öll frá Háskóla Íslands. Blaðið er að finna hér ef einhver vill lesa:

https://sibs.is/fraedsla/utgafa/sibs-bladid-februar-2025/



Njótið helgarinnar!



Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka