Föstudagsmolar forstjóra 14. mars 2025.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Frábær mæting á árshátíðina!
Nú er bara rúm vika í árshátíðina okkar og það stefnir í frábæra mætingu. Búið að er láta almannavarnir vita en eins og frægt er orðið kom dansæði Reykjalundarstafsfólks fram á jarðskjálftamælum á Snæfellsnesi í fyrra (alla veganna segir sagan það). Hlakka heldur betur til og bestu þakkir til árshátíðarnefndarinnar.
Myndatökur fyrir kynningarefni og Reykjalundarsöguna.
Eins og kynnt hefur verið, verður síðar á árinu gefin út bókin Saga Reykjalundar. Það er Pétur Bjarnason sem hefur haldið utan um söguritunina en honum til halds og trausts hefur verið ritnefnd skipuð þeim Bjarka Bjarnasyni, Birgi D. Sveinssyni og Jónínu Sigurgeirsdóttur auk undirritaðs og Ragnars Ólasonar ljósmyndara. Myndin með molunum í dag var einmitt tekin á fundi ritnefndarinnar nýlega. Rósa María Guðmundsdóttir og margir fleiri hafa einnig komið að málum og er sjálfsagt að þakka öllum fyrir aðstoðina og þátttökuna. Bókin mun formlega koma út á haustdögum og verður þá kynnt sérstaklega.
Sem söguleg heimild fyrir bókina, en ekki síður til að nota í kynningarskyni fyrir okkur starfsfólk Reykjalundar við ýmis tækifæri fyrir starfsemi Reykjalundar, verða allar deildir, starfseiningar og meðferðarteymi boðuð í hópmyndatökur á næstunni. Jafnframt tökum við ýmsar myndir úr daglegu starfi. Fyrirkomulag á því verður kynnt sérstaklega en við hvetjum alla til að vera með.
Að lokum fylgja hér hugleiðingar frá formanni stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf., Guðrúnu Björgu Sigurbjörnsdóttur sem tók við formannsembættinu síðasta sumar.
Góða helgi!
Pétur
Hugleiðingar frá stjórnarformanni.
Á afmælisráðstefnu Reykjalundar í febrúar var endurhæfingarstofnunum landsins stefnt saman og greinilega mikil ánægja með það frumkvæði. Kraftur í starfi Reykjalundur og framþróun kom einnig vel í ljós. Reykjalundur er endurhæfingarstofnun með 80 ára farsæla sögu og er leiðandi í endurhæfingarþjónustu á landsvísu.
CARF innleiðing er brautryðjendastarf í endurhæfingu á Íslandi. Í nýlegri skýrslu starfshóps á vegum heilbrigðisráðherra um stöðugreiningu á heilbrigðisstefnu til 2030 kom m.a. fram að „Almennt vantar þjónustuviðmið og gæðamælikvarða fyrir stóran hluta heilbrigðisþjónustu ... og Reykjalundur talinn þar með."
CARF úttekt verður í byrjun júní og þá getur Reykjalundur sett fram skýrari þjónustuviðmið og gæðamælikvarða í komandi samningum við Sjúkratryggingar.
Ég fagna krafti og þori starfsmanna Reykjalundar til að ryðja brautina með hag skjólstæðinga sinna að leiðarljósi.
Njótið helgarinnar.
Kveður,
Guðrún BjörgTil baka