Endurhæfing er grunnstoð heilbrigðisþjónustu.
Í Morgunblaðinu í gær birtist grein eftir Pétur Magnússon, forstjóra Reykjalundar sem ber nafnið Endurhæfing: Grunnstoð heilbrigðisþjónustu.
Greinina er að finna hér fyrir þá sem hafa áhuga á að lesa:
ENDURHÆFING: GRUNNSTOÐ HEILBRIGÐISÞJÓNUSTU.
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, World Health Organization, hefur áætlað að þörf fyrir endurhæfingu aukist á heimsvísu samhliða samfélagsbreytingum og lýðfræðilegum breytingum s.s. breyttri aldurssamsetningu þjóða, bættum læknismeðferðum og betri lífslíkum í kjölfar greiningar á langvinnum sjúkdómum. Stofnunin áætlar að einn af hverjum þremur komi til með að þurfa á endurhæfingarþjónustu að halda einhvern tíma á lífsleiðinni. Það er því ljóst að endurhæfing gegnir lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu til framtíðar.
Endurhæfing er góð fjárfesting.
Endurhæfing er ein ábatasamasta fjárfesting sem völ er á. Samfélagslega er mikilvægt að einstaklingur sé þjálfaður aftur upp til að komast út í lífið og taka þátt, ekki síst á atvinnumarkaðnum. Það eykur framleiðni og verðmætasköpun og dregur úr atvinnuleysi auk þess sem kostnaður vegna áratuga bótagreiðslna sparast. Mikilvægara er þó að endurhæfing margfaldar lífsgæði viðkomandi einstaklings sem einnig hefur mikil áhrif á lífsgæði nánustu fjölskyldu og vina. Einstaklingurinn sjálfur fjárfestir í sínum tíma og uppsker ríkulega. Bætt andleg líðan, betri svefn og aukin líkamleg geta skapa einstaklingnum forsendur til bættrar færni og samfélagslegrar þátttöku. Það styrkir tengsl þeirra við samfélagið og dregur úr félagslegri einangrun.
Viðeigandi endurhæfing minnkar álag á heilbrigðiskerfið í heild, því það dregur úr líkum á sjúkrahúsdvöl til lengri tíma og lækkar kostnað við langtíma meðferðir.
Starfsfólk Reykjalundar hefur unnið með stolti af bættum lífsgæðum á hverjum degi frá stofnun fyrir 80 árum.
Fagmennska í fyrirrúmi.
Á Reykjalundi fer fram alhliða endurhæfing sem miðar að bættum lífsgæðum, aukinni færni og sjálfsbjargargetu þeirra sem þangað leita. Reykjalundur, sem er í eigu SÍBS, er í dag stærsta endurhæfingarstofnun landsins og þjónar einstaklingum alls staðar að. Um 110-130 sjúklingar sækja þjónustu á Reykjalundi á degi hverjum. Á hverju ári fara þannig um það bil 1.300 manns í gegnum endurhæfingarmeðferð á Reykjalundi, flestir í 4-6 vikur í senn.
Endurhæfing Reykjalundar er byggð upp samkvæmt alþjóðlegum, klínískum leiðbeiningum. Þar er samvinna ólíkra heilbrigðistétta með ólíkan bakgrunn og reynslu lykilatriði í því að finna sem farsælasta lausn fyrir lífsgæði hvers einstaklings fyrir sig.
Á þessu ári hyggst Reykjalundur styrkja enn faglegt starf með því að innleiða alþjóðlega gæðavottun um endurhæfingu, CARF. Reykjalundur er frumkvöðull hér á landi varðandi þessa vottun og verður þá hægt að bera þjónustuna saman við alþjóðlega gæðastaðla. Við erum stolt af því starfi sem unnið er innan Reykjalundar og hlökkum til að geta borið okkur saman við það besta sem gerist í heiminum.
Reykjalundur mikilvægur fyrir samfélagið allt.
Um þessar mundir fagnar Reykjalundur 80 ára afmæli. Á þeim 80 árum hafa tugir þúsunda Íslendinga fengið mikilvæga endurhæfingarþjónustu á Reykjalundi sem skilar bæði samfélagslegum og efnahagslegum ávinningi. Það er því við hæfi að óska okkur öllum til hamingju með 80 ára afmæli Reykjalundar.