Föstudagsmolar forstjóra 28. febrúar 2025.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
13 milljóna styrkur til innleiðingar CARF – úttekt fer fram 4.-6. júní.
Það ætti varla að hafa farið framhjá neinum að við hér á Reykjalundi erum nú á fullu að styrkja enn frekar faglegt starf okkar með því að innleiða alþjóðlega gæðavottun um endurhæfingu, CARF. Reykjalundur er frumkvöðull hér á landi varðandi þessa vottun og verður þá hægt að bera þjónustuna saman við alþjóðlega gæðastaðla. Við erum stolt af því starfi sem unnið er innan Reykjalundar og hlökkum til að geta borið okkur saman við það besta sem gerist í heiminum. Þetta ferli hefur kallað á innri naflaskoðun í starfseminni í öllum hornum sem verður án efa bara til að gera gott starf ennþá markvissara og betra. Sérstaklega hefur þetta ýtt við okkur varðandi uppfærslur á formlegum verkferlum hjá okkur, bæði í faglega starfinu en ekki síður í stoðþjónustueiningum eins og mannauðsmálum og fjármálum. Stóra stundin sjálf fer fram dagana 4. -6. júní en þá koma erlendir úttektaraðilar til okkar og munu nota þessa daga til að skoða og meta starfsemina okkar.
Í haust fengum við úthlutað styrk til innleiðingarinnar úr sjóði á vegum Embættis landlæknis og nú hefur heilbrigðisráðuneytið kynnt 13 milljóna styrk til innleiðingarinnar sem við erum mjög þakklát fyrir. Þessi styrkur er mikil viðurkenning á mikilvægi þessa verkefnis fyrir endurhæfingaþjónustu hér á landi. Það er greinlega mikil athygli og meðbyr með endurhæfingu þessi misserin og því sambandi er áhugavert að minna orð heilbrigðisráðherra á afmælisráðstefnunni okkar þar sem hún tilkynni að dagskrá heilbrigðisþings 2025, sem fram fer í haust, yrði tileinkuð endurhæfingu.
Árshátíðin framundan.
Nú er árshátíðin okkar framundan og allt á fullu í undirbúningi. Á næstu dögum verður dagskrá kynnt og fyrirkomulag miðasölunnar en í forkönnun árshátíðarnefndar kom fram gríðarmikill áhugi. Í morgun fundaði árshátíðarnefnd með Guðbjörgu mannauðstjóra um síðustu lausu undirbúningsatriðin og þá var einmitt myndin tekin sem fylgir molunum í dag. Um leið og við sendum Kristínu, Gyðu og Magnínu í árshátíðarnefndinni góðar kveðjur, hvet ég sem allra flesta til að taka þátt í árshátíðinni.
Hvað ætlar þú að vera á öskudaginn?
Að lokum vil ég svo bara minna á skemmtilegu dagana sem eru í næstu viku. Bolludagur er á mánudaginn og þá mun eldhúsið okkar töfra fram bollur af ýmsu tagi handa okkur að hætti hússins. Þetta verður betur kynnt á mánudag. Þriðjudagurinn er svo sprengidagur og þó hefðbundin matur þennan dag sé kannski ekki í samræmi við ítrustu staðla manneldisráðs brjótum við nú odd af oflæti okkar og tökum þátt í þjóðlegum siðum.
Á miðvikudaginn er svo öskudagurinn. Við hér á Reykjalundi höfum almennt verið dugleg að klæða okkur í búninga og hafa gaman á þessum degi og vil ég hvetja alla til að halda því áfram. Hlakka til að sjá dýrðina á miðvikudaginn.
Góða og gleðilega helgi!
Pétur