18.02.2025

Úthlutað úr Oddssjóði.

Fyrir tveimur árum var skipulagsskrá Oddssjóðs uppfærð og aðlöguð að nútíma aðstæðum. Meðal annars voru gerðar skýrari reglur um úthlutun þannig að fjármunir sjóðsins nýtist betur, starfsemi Reykjalundar til heilla. Í nýja stjórn sjóðsins voru skipuð Edda Björk Skúladóttir úr Fagráði Reykjalundar, Gunnar Ármannsson fulltrúi stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf. og forstjóri Reykjalundar.
Í breyttri skipulagsskrá segir:
„Tilgangur sjóðsins er annars vegar að efla fræðslu í þágu starfseminnar á Reykjalundi og hins vegar að veita fé til kaupa á tækjum og búnaði í samvinnu við Hollvinasamtök Reykjalundar til notkunar við endurhæfingu á Reykjalundi. Einungis starfsfólk Reykjalundar endurhæfingar ehf. getur sótt um framlög úr sjóðnum.“
Í fyrra var úthlutað í fyrsta skipti úr sjóðnum eftir nýju fyrirkomulagi og voru þá um fimmhundruð þúsund krónur til úthlutunar sem runnu til þriggja skemmtilegra verkefna.
Nýlega var aftur auglýst eftir umsóknum og bárust fjórar umsóknir um styrki að þessu sinni, að verðmæti tæplega tvær milljónir króna. Til úthlutunar voru hins vegar um fimmhundruð þúsund krónur og fengu fjögur verkefni styrk: Búnaður fyrir sex einstaklinga vegna flotmeðferðar í sundlaug, borðtennisborð ásamt neti og spöðum til notkunar í íþróttasal, LSVT LOUD coach - professional edition hugbúnaður sem mælir raddstyrk og blæbrigði raddar auk þess sem hann mælir meðalstyrk raddar í upplestri eða sjálfssprottnu tali og loks flutningshjólastóll ásamt fylgibúnaði fyrir sjúklinga Miðgarðs.

Meðfylgjandi mynd var tekin við formlega úthlutun úr sjóðnum á dögunum og sýnir sjóðsstjórn ásamt styrkþegum. Við óskum styrkþegum hjartanlega til hamingju!

Til baka