Föstudagsmolar forstjóra 14. febrúar 2025. Gestahöfundur er Anný Lára Emilsdóttir framkvæmdastjóri Hleinar.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Það er vel við hæfi að hefja mola vikunnar á afmælisráðstefnunni okkar sem fram fór í vikunni. Nú þegar er komið í loftið myndasafn frá ráðstefnunni en mig langar að nota þetta tækifæri og þakka ráðstefnunefndinni fyrir fína flottu vinnu. Ráðstefnan heppnast frábærlega og var mjög áhugaverð og skemmtilegt enda líflegt þar sem tæplega 250 sérfræðingar í endurhæfingu koma saman.
Eins og fram kom, hefur Alþjóða heilbrigðismálastofnunin, World Health Organization, áætlað að þörf fyrir endurhæfingu muni aukast á heimsvísu samhliða samfélagsbreytingum og lýðfræðilegum breytingum s.s. breyttri aldurssamsetningu þjóða , bættum læknismeðferðum og aukinni lifun í kjölfar greiningar á langvinnum sjúkdómum. Áætlað er að einn af hverjum þremur muni þurfa á endurhæfingarþjónustu að halda einhvern tíma á lífsleiðinni.
Því er ljóst að endurhæfing mun gegna lykilhlutverki í heilbrigðisþjónustu til framtíðar.
Á ráðstefnunni okkar koma fram að greinilegur áhugi er á aukinni samvinnu í endurhæfingargeiranum og gaman er fyrir okkur á Reykjalundi að taka þátt í að skapa slíkan vettvang, meðal annars með ráðstefnum sem þessari.
Þar sem við á Reykjalundi höfum það sem eitt af markmiðum okkar að vera leiðandi aðili í endurhæfingarþjónustu hér á landi fögnum við mjög áhuga heilbrigðisráðherra á málaflokkunum og því að heilbrigðisþing næsta haust verði tileinkað endurhæfingu.
Ég vil nota þetta tækfæri og þakka ráðstefnunefndinni, fyrirlesurum og öllum öðrum sem aðstoðuðu við ráðstefnuna ásamt því að þakka ykkur öllum sem gáfuð ykkur tíma til að sækja þennan merka viðburð.
Annars er Anný Lára Emilsdóttir, framkvæmdastjóri Hleinar, gestahöfundur í dag og segir okkur hvað er helst að frétta af vinum okkar á Hlein.
Njótið helgarinnar,
Bestu kveðjur,
Pétur
Föstudagsmolar 14. febrúar 2025 - Á Hlein hjúkrunarsambýli gengur lífið sinn vanagang.
Þegar ég var beðin að skrifa Föstudagsmolana fyrir hönd Hleinar þá voru mín fyrstu viðbrögð að það væri svo sem ekkert fréttnæmt í gangi hér. En svo minnti ég sjálfa mig á að hversdagurinn er dásamlegt fyrirbæri – og það er þá alla vega engin krísa í gangi fyrst mér finnst ekkert vera í fréttum.
Slæmt veðurfar hefur sett sinn strik í reikninginn hér á Hlein og á sama tíma var bilun í snjóbræðslukerfinu svo í nokkra daga gátu íbúar gátu ekki farið stíginn upp að Reykjalundi í Vinnustofuna og í sjúkraþjálfun. Það rof á hversdeginum minnti okkur rækilega á hvað návígið við Reykjalund er okkur dýrmætt. Að íbúar geti gengið eða farið í hjólastól á milli Hleinar og Reykjalundar í fallegri náttúru, jafnvel nokkrum sinnum á dag, er ómetanlegt fyrir líkama og sál. Þrátt fyrir endalausar rigningar með þvílíkum sviptivindum, lak ekki einn einasti dropi í gegnum þakið á Hlein. Því ber að þakka bráðabirgðaþakviðgerð sem ráðist var í síðasta haust, sem tókst betur en nokkur þorði að vona. Þvottabalasafnið okkar er því til sölu gegn vægu gjaldi ha,ha… Draumurinn er svo að fjármagn fáist fyrir endurbótum á glerinu á sólstofunum næsta vor.
Innanhúss höfum við einnig verið í framkvæmdagírnum undanfarin misseri. Við kláruðum að leggja nýtt gólfefni á íbúðirnar sem ekki höfðu klárast í fyrri áfanga. Þvottahúsið og geymslan var endurskipulögð, þar var málað og sett nýtt gólfefni. Þessa dagana erum við að leggja lokahönd á að víxla matarbúrinu og skrifstofunni og þá ættum við að vera í mjög góðum málum innanhúss.
Þegar ég lít yfir þessi skrif mín þá átta ég mig á því að það hefur bara verið nóg um að vera á Hlein undanfarið. Það er bara þannig að það er svo góður andi á Hlein að jafnvel stór verkefni eins og innanhúsframkvæmdir verða viðráðanleg með jákvæðu hugarfari og einstakri samvinnu. Við segjum gjarnan að það ríki blessun yfir okkur hér á Hlein.
Og svona í lokin þá má ekki gleyma að monta sig af því að við vorum að festa kaup á nýlegri Toyota Rav bifreið sem leysti gömlu grænu þrumuna af hólmi sem hafði staðið sína pligt dyggilega í áraraðir.
Meðfylgjandi eru myndir af hluta af íbúum Hleinar í Vinnustofunni okkar sem stýrt er af Maríu Haukdal iðjuþjálfa og Oddnýju Hildi kennara.
Anný Lára Emilsdóttir
framkvæmdastjóri HleinarTil baka