Föstudagsmolar forstjóra 7. febrúar 2025.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Takk kærlega fyrir okkur!
Þrátt fyrir óveður og ófærð í gær var starfsemin í fullum gangi. Við höfðum fyrir löngu ákveðið að bjóða upp á afmælismat í hádeginu í gær en Reykjalundur er 80 ára um þessar mundir. Slíkri matarveislu er erfitt að fresta og þó að ekki allir hafi komist, tókst mjög vel til. Fjöldi starfsmanna, sjúklinga og gesta náði að þiggja boðið þegar Gunnar, Jónas og samstarfsfólk í eldhúsinu töfruðu fram ljúffenga veislu; gómsætt nautakjöt að Norðan með bernaise-sósu og öllu tilheyrandi ásamt dásamlegum eftirrétti. Sagan segir að hátt í 30 lítrar að bernaise-sósu hafi horfið ofan í mannskapinn.
Mig langar að nota þetta tækifæri og þakka starfsfólk eldhússins kærlega fyrir frábæra máltíð. Jafnframt er sjálfsagt að þakka öllum sem komu og tóku þátt með okkur.
Með molunum í dag er myndasyrpa frá gærdeginum til að gefa innsýn í stemninguna. Eðli málsins samkvæmt birtum við aðeins myndir af starfsfólki en ekki sjúklingum. Eins og oft áður náðust ekki myndir af nærri því öllum. Fleiri myndir eru á Facebook.
Húsfyllir á afmælisráðstefnunni okkar í næstu viku.
Væntanlega hefur ekki farið framhjá neinum að við á Reykjalundi höfum boðað til veglegrar ráðstefnu um endurhæfingu miðvikudaginn 12. febrúar 2025 á Hótel Natura, í tilefni af afmælinu okkar. Ráðstefnan er hugsuð fyrir heilbrigðisstarfsfólk en er öllum opin. Munum við fjalla um stöðu mála í endurhæfingu, heyra sýn nýs heilbrigðisráðherra, ræða mikilvægi út frá heilsuhagfræði, kynnast nýjungum, velta fyrir okkur framtíðarsýn og fá erlendan gest sem kynnir alþjóðalega CARF-gæðakerfið sem Reykjalundur stefnir á að taka upp á afmælisárinu. Síðast en ekki síst fléttum við inn í dagskrána stuttum kynningum frá fjölda aðila sem í málaflokknum starfa.
Gaman er að segja frá því rúmlega 200 manns eru þegar skráðir sem er töluvert meira en við gerðum ráð fyrir. Við erum þó að gera ráðstafanir svo vel fari um alla ráðstefnugesti.
Enn er möguleiki að skrá sig. Sérstakur tengill er hefur verið sendur sérstaklega á okkur starfsfólk Reykjalundar en aðrir skrá sig í gegnum auglýsingar ráðstefnunna á heimasíðu Reykjalundar eða Facebook.
Ég vil að lokum þakka fyrir mjög fína mætingu á starfsmannafundinn á miðvikudaginn, þrátt fyrir stuttan fyrirvara. Nú þegar er búið að senda út glærurnar frá fundinum.
Við höldum ykkur svo upplýstum jafnóðum og eitthvað nýtt er að frétta, ekki síst í húsnæðismálunum.
Góða og gleðilega helgi – Reykjalundur rokkar!
Bestu kveðjur,
Pétur