Föstudagsmolar forstjóra 31. janúar 2025.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
80 ára afmælisdagur á morgun!
Á morgun, 1. febrúar, fagnar Reykjalundurinn okkar 80 ára afmæli en þá eru nákvæmlega 80 ár síðan fyrsti sjúklingurinn var formlega innritaður á Reykjalund. Síðan þá hefur sannarlega mikið vatn runnið til sjávar en saga Reykjalundar er auðvitað samofin sögu endurhæfingar í landinu og merkilegri sögu SíBS. Það er því vel við hæfi að myndin með molunum í dag sé sögulegs eðlis en á henni má sjá fyrstu byggingu Reykjalundar (A-bygginguna) í uppslætti en hún er notuð enn þann dag í dag. Einnig má sjá hermannabraggana sem nýttust vel í upphafi starfseminnar meðan uppbygging húsnæðisins stóð yfir.
Afmælisárið verður haldið hátíðlegt með ýmsum hætti. Við byrjum strax í næstu viku með því að bjóða starfsfólki, sjúklingum og öðrum skjólstæðingum í árlegan afmælishádegisverð. Þann 12. febrúar heldur Reykjalundur svo glæsilega afmælisráðstefnu um endurhæfingu þar sem vel á annað hundrað manns hafa þegar skráð sig. Frekari viðburðir vegna afmælisársins verðar svo kynntir þegar nær dregur.
Það er sjálfsagt að nota þetta tækifæri og óska okkur öllum, sem og öllum sem komið hafa að sögu Reykjalundar, hjartanlega til hamingju með stórafmælið.
Saga Reykjalundar í ritun.
Í tilefni af afmælisárinu er verið að leggja lokahönd á ritun Sögu Reykjalundar. Það er Pétur Bjarnason sem hefur haldið utan um söguritunina en honum til halds og trausts hefur verið ritnefnd, skipuð þeim Bjarka Bjarnasyni, Birgi D. Sveinssyni og Jónínu Sigurgeirsdóttur auk undirritaðs og Ragnars Ólafssonar ljósmyndara. Rósa María Guðmundsdóttir og margir fleiri hafa einnig komið að málum og er sjálfsagt að þakka öllum fyrir aðstoðina og þátttökuna.
Bókin mun formlega koma út á haustdögum og verður þá kynnt vel og rækilega.
Úthlutað úr Oddsjóði
Gaman er að segja frá því að í næstu viku munum við veita styrki úr Oddssjóði. Fyrir tveimur árum var skipulagsskrá Oddssjóðs uppfærð og aðlöguð að nútíma aðstæðum. Meðal annars voru gerðar skýrari reglur um úthlutun þannig að fjármunir sjóðsins nýtist betur, starfsemi Reykjalundar til heilla.
Í skipulagsskrá segir: „Tilgangur sjóðsins er annars vegar að efla fræðslu í þágu starfseminnar á Reykjalundi og hins vegar að veita fé til kaupa á tækjum og búnaði í samvinnu við Hollvinasamtök Reykjalundar til notkunar við endurhæfingu á Reykjalundi. Einungis starfsfólk Reykjalundar endurhæfingar ehf. getur sótt um framlög úr sjóðnum.“ Í fyrra var úthlutað um 500.000 krónum eftir nýja fyrirkomulaginu og nú verður svipaðri upphæð úthlutað til spennandi verkefna.
Að lokum minni á ég starfsmannafundinn okkar í hádeginu á miðvikudaginn í samkomusalnum en honum var frestað um eina viku vegna veikinda.
Njótið helgarinnar!
Bestu kveðjur,
Pétur