Föstudagsmolar 10. janúar 2025 - Frá framkvæmdastjóra lækninga
Kæra samstarfsfólk,
Nú eru spennandi tímar fram undan hér á Reykjalundi á vormánuðum þar sem undirbúningur fyrir úttekt hins alþjóðlega gæðavottunarkerfis, CARF (Commission on Accreditation of Rehabilitation Facilities) á Reykjalundi er í fullum gangi og stefnt að formlegri skoðun í júní 2025. Gaman að því!
Mig langar hins vegar aðeins að segja ykkur frá litlu verkefni sem við Berglind Gunnarsdóttir gæðastjóri Reykjalundar hófum á haustmánuðum 2024 og kölluðum Gæðastund. Við buðum öllu starfsfólki Reykjalundar til 25 mínútna fundar einu sinni í viku þar sem vildum fræða og ræða undraheima CARF gæðavottunarkerfisins og áhrif þess á starfsemi Reykjalundar. Tilgangurinn var að búa til vettvang fyrir samtal, nýjar hugmyndir og auka tengslamyndun.
Fyrsta Gæðastundin var þann 21. október og buðum við þá uppá almenna kynningu á CARF og komandi skoðun í júní 2025. Í kjölfar þess fundar komu ábendingar frá starfsfólki að hafa svipaða kynningu á samkomusal. Þessari hugmynd tókum við vel og skipulögðum fund þann 20. nóvember þar sem Terrence Carolan CARF sérfræðingur var með okkur á TEAMS. Fundurinn var vel sóttur og vonum við að hann hafi náð að svara ýmsum spurningum og blásið okkur von í brjóst fyrir komandi tíma.
Við héldum svo áfram með Gæðastund á hverjum mánudegi og vorum með fyrir fram ákveðið þema sem við lögðum út frá og í kjölfarið sköpuðust alla jafna fjörlegar umræður og góð og jákvæð stemning sveif yfir vötnum.
Við ræddum meðal annars um breytingar og skelltum fram þeirri spurningu hvort allt hefði verið betra áður fyrr? Og vissulega er það svo að sumt kannski var betra en annað ekki – og dæmi þá bara hver fyrir sig 😊
En það sem er að minnsta kosti viðtekið álit á heimsvísu er að heimurinn er öðruvísi út en áður. Hann er flóknari, meiri tækni, meiri hraði, hraðari breytingar og meira óöryggi. Þetta leiðir svo til aukinna krafna á alla starfsemi.
Til þess svo að ráða við þennan nýja veruleika þá þurfum við samheldin teymi, öðruvísi stjórnunarhætti en áður og starfsemi sem byggir á þátttöku og samvinnu.
En hvernig ætlum við að bregðast við þessum breyttu aðstæðum? Og hvernig menning er æskileg á vinnustaðnum:
Jú við þurfum hugmyndir sem koma frá grasrótinni og helst margar hugmyndir og við þurfum að þora að prófa. Við þurfum þátttöku og samvinnu stjórnenda/leiðtoga og starfsfólks. Það er einnig mikilvægt að við öll getum viðurkennt mistök og lært af þeim í framhaldinu.
Til að bregðast við breyttum veruleika og til að stuðla að þeirri vinnustaðamenningu sem við teljum æskilega þá ræddum við talsvert um traust og sálfélagslegt öryggi. Horfðum meðal annars á eitt videoklipp saman og mæli ég með því að þeir sem ekki hafa séð þetta stutta klipp gefi sér tíma og kíki á það.
https://www.youtube.com/watch?v=eP6guvRt0U0
Við ræddum einnig hver það væri sem bæri ábyrgð á því að skapa traust og öryggi á vinnustaðnum? Og það var samdóma álit að við berum öll ábyrgð á því að skapa teymi með trausti og sálfélagslegu öryggi. Hér mæli ég einnig með áhugaverðu videoklippi um efnið:
https://www.youtube.com/watch?v=cy8Gj9rr-iE
Við skelltum svo fram spurningunni og báðum fólk að velta fyrir sér eftirfarandi:
Hvað gerir þú svo að aðrir upplifi traust og öryggi í vinnunni?
Við ræddum líka talsvert um mistök og ólíkar tegundir mistaka og hvernig við bregðumst við þeim og lögðum umræðurnar útfrá eftirfarandi video:
https://youtu.be/xqawh6VFvXg?si=xMHI7LcdnzqaxZ7J
Síðasta videoið sem ég mæli með að þessu sinni er almenn umfjöllun um CARF:
Fyrsta Gæðastund ársins 2025 fór fram síðastliðinn mánudag og þá ræddum við framtíð Gæðastundarinnar og næstu CARF skref.
Við höfum ákveðið að vera áfram með frátekinn tíma einu sinni í viku þar sem ég, Berglind og Gunnhild verkefnastjóri CARF munum vera til staðar ef einstaklingar, vinnuhópar eða jafnvel teymi vilja koma og ræða CARF við okkur. Einu sinni í mánuði munum við svo vera með smá kynningu og umræður í kjölfarið og verður það nánar kynnt síðar.
Þannig að næsta mánudag þann 13 janúar kl: 12:30-12:55 munum við þrjár sitja fyrir svörum í Grímansfelli og eru allir velkomnir.
Þeim sem höfðu sig í gegnum allan pistilinn þakka ég kærlega fyrir lesturinn og býð uppá sérstakt leynihandtak á ganginum og einnig samhæfð 8 dansspor frá okkur þremenningum næst þegar þið sjáið okkur saman, lausnarorðin sem leysa dansinn úr læðingi eru CARF er lífið!
Hafið það gott og farið vel með ykkur,
CARF kveðjur,
Árdís Björk Ármannsdóttir, endurhæfingarlæknir.
Til baka