Föstudagsmolar forstjóra 3.1.2025 - Gleðilegt ár!
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Þá erum við farin að tínast til baka eftir verðskuldað jólafrí. Rétt eins og þessi fyrsta vinnuvika ársins, verða molarnir örstuttir þessa vikuna.
Ég vil byrja á að óska ykkur gleðilegs og gæfuríks árs. Vonandi hafa sem allra flest ykkar náð að njóta hátíðanna sem best. Jafnframt þakka ég enn og aftur fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf á síðasta ári. Það er ekki annað hægt en að vera fullur tilhlökkunar í garð þessa nýja árs. Okkar hér á Reykjalundi bíður fjöldi spennandi verkefna, bæði ný og gömul.
Nú er sannkallað afmælisár í sögu Reykjalundar en í febrúar fagnar Reykjalundur 80 ára afmæli. Við fögnum afmælisárinu með ýmsum hætti á árinu. Meðal annars býður Reykjalundur upp á afmælismat í hádeginu 6. febrúar og þann 12. febrúar höldum við glæsilega afmælisráðstefnu um endurhæfingarmál. Fleiri afmælisviðburðir verða kynntir þegar líður á árið.
Það er jafnframt gaman að geta þess að á þessu afmælisári innleiðum við alþjóðlega gæðakerfið í endurhæfingu, CARF, hér á Reykjalundi, og mun það án efa setja sterkan svip á þetta afmælisár.
Umsókn okkar um innleiðinguna og úttekt á starfseminni var skilað inn rétt fyrir jólin og var það CARF-þríeykið okkar, þær Árdís Björk framkvæmdastjóri lækninga, Berglind gæðastjóri og Gunnhild verkefnastjóri, sem sáu um það fyrir okkur. Það er því vel við hæfi að þær prýði myndina með molunum í dag en myndin var tekin á fræðslufundi þeirra fyrir okkur starfsfólk sem fram fór nú í nóvember.
Það er líka gaman að segja frá því að nú í janúar og febrúar verður netkerfi Reykjalundar uppfært til nútímans en það gamla er orðið ansi lélegt. Markmiðið er að netkerfið okkar verði öruggara og hraði mun margfaldast. Þetta kallar á ákveðnar framkvæmdir en reynt verður að gera sem mest af því um kvöldin og helgar til að raska sem allra minnst daglegri starfsemi. Við starfsfólk munum því finna töluverðan mun á nethraða í vinnu okkar sem vonandi gerir starfið markvissara og betra.
Þó það sé gott að komast í frí, finnst mér líka alltaf gott að koma til baka í hefðbundna daglega vinnurútínu. Nú er starfið okkar komið á fullt eftir fríið og því vil ég nota þetta tækifæri og bjóða ykkur velkomin aftur – jafnframt hlakka ég til að takast á við, með ykkur, hið spennandi ár 2025!
Njótið þessarar fyrstu helgar ársins!
Bestu kveðjur,
Pétur