13.12.2024

Föstudagsmolar forstjóra 13. desember 2024.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

 

Takk kærlega fyrir jólavikuna!

Ég vil byrja þessa mola á að þakka ykkur kærlega fyrir þátttöku og skemmtilegheit þessa viku sem er að líða. Þetta er vikan sem jólahald hér á Reykjalundi hefur verið í hámarki. Á mánudaginn héldum við jólaball fyrir okkur starfsfólk, börn og barnabörn og tókst það glimmrandi vel. Á miðvikudagurinn héldum við svo jólafund Reykjalundar. Þar leggjum við hefðbundin atriði starfsmannafunda til hliðar og léttum okkur lundina. Á fundinum opnuðum við Instagram-reikning Reykjalundar, veittum starfsaldursviðurkenningar og söngkonan GDRN og píanóleikarinn Magnús Jóhann fluttu okkur hugljúf jólalög sem komu öllum í jólaskapið. Í gær bauð svo Reykjalundur upp á jólamat í hádeginu þar sem starfsfólkið í eldhúsinu töfraði fram dásamlegar krásir. Jafnframt voru allir hvattir til að vera jólalega klæddir og það þarf nú ekki að spyrja af undirtektum. Ótrúlega glæsilegur hópur að vinna hér á Reykjalundi og eftir helgina munum við birta sérstaka myndasyrpu frá deginum enda margir ansi skrautlegir.

Enn og aftur kærar þakkir fyrir öfluga þátttöku og gera þetta allt jafn skemmtilegt og raun ber vitni.

 

Heiðruð fyrir 20 ára starf.

Á jólafundinum okkar síðasta miðvikudag var viðhaldið þeirri skemmtilegu hefð að heiðra sérstaklega þá starfsmenn sem náð hafa 20 ára starfsafmæli á Reykjalund á árinu sem er að líða. Í ár voru það hvorki meira né minna en sjö snillingar sem náðu þessu merka áfanga. Þetta eru sjúkraþjálfararnir Ásdís Kristjánsdóttir, Ásþór Sigurðsson, sjúkraþjálfari og Heidi Andersen, Karl Kristjánsson læknir, Stefanía Gerður Jónsdóttir hjúkrunarfræðingur, Rúnar Helgi Andrason sálfræðingur og Gunnar Jónsson matreiðslumaður.

Við þökkum þeim kærlega fyrir tryggð og þjónustu við Reykjalund og endurhæfingu á Íslandi um leið og við óskum þeim enn og aftur til hamingju með áfangann.

 

Pétur safnar fyrir Reykjalund.

Pétur H. Hansen er einn þeirra fjölmörgu sem notið hafa þjónustu okkar hér á Reykjalundi. Hann hefur nú sett á stað söfnun fyrir ferðasúrefnisvélum sem nýtast mjög vel fyrir þá sem þjást af lungnasjúkdómum. Pétur lét útbúa glæsileg barmmerki sem hann selur til að safna fyrir vélunum sem verða gefnar, bæði hingað á Reykjalund en einnig á Landspítala.

Barmmerkin eru nú komin í sölu hér Reykjalundi og fást í móttökunni í aðalanddyri. Merkið kostar 1.000 kr og var það Guðrún Björg Sigurbjörnsdóttir formaður stjórnar Reykjalundar endurhæfingar ehf. sem keypti fyrsta merkið af Pétri.

Um leið og við þökkum Pétri kærlega fyrir þetta einstaka og merkilega framtök hvetjum við alla til að kaupa merki og styðja við söfnunina.

 

Góða helgi!

 

Bestu kveðjur,

Pétur

Til baka