Tvöfalt 45 ára afmæli - Heilsuþjálfun og talþjálfun á Reykjalundi.
Fullveldisdagurinn 1. desember 2024 er merkilegur fyrir margra hluta sakir. Hér á Reykjalundi er það ekki síst vegna þess að þennan dag voru 45 ára afmæli bæði hjá heilsuþjálfun og talþjálfun á Reykjalundi en starfsemi beggja deildanna hófst hér hinn 1. desember 1979.
Af þessu tilefni var halið upp á afmælin í síðustu viku þegar meðfylgjandi mynd var tekin.
Jafnframt ritaði Lárus S. Marinusson forstöðuíþróttafræðingur skemmtilegan pistil vegna tímamótanna með aðstoð Sigríðar Magnúsdóttur talmeinafræðings sem var frumkvöðull í talþjálfun hér á Reykjalundi en hefur fyrir nokkru látið af störfum.
Pistillinn fylgir hér og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir.
„45 ára afmæli heilsuþjálfunar á Reykjalundi
Starfsemi heilsuþjálfunar á Reykjalundi hófst 1. desember árið 1979. Fyrstu starfsmennirnir voru íþróttakennararnir Logi og Lilja sem hófu störf hér á Reykjalundi á sama tíma. Ljóst var að um mikla nýbreytni í starfseminni var að ræða.
Aðstaða til þjálfunar var ekki góð til að byrja með enda var staðurinn byggður sem endurhæfingarstaður fyrir berklasjúklinga. Fyrstu árin var áhersla lögð á þjálfun utandyra þar sem boðið var upp á reiðþjálfun undir stjórn Guðrúnar í Dalsgarði. Jafnframt var byggð upp róðraþjálfun á Hafravatni sem og golfiðkun. Vetraríþróttir voru kynntar og þá sérstaklega þjálfun á gönguskíðum og boðið var upp á gönguferðir og bogfimi. Þau Logi og Lilja sáu einnig um félagslega þáttinn og stóðu fyrir vikulegum kvöldvökum á fimmtudögum.
Árið 1985 var samkomusalurinn tekinn í notkun. Hann var upphaflega hannaður sem kvikmyndasalur. Áður hafði hann verið notaður sem geymsla um þó nokkurt skeið. Við hönnun salarins var hugað að hljómgæðum og Hildur Þráinsdóttir iðjuþjálfi myndskreytti salinn. Hermann Ragnar Stefánsson danskennari kom reglulega á Reykjalund og bauð upp á dans fyrir vistmenn í samkomusalnum.
Magnús B. Einarson læknir hélt utan um heilsuþjálfunina frá upphafi og til ársins1988 þegar hún var gerð að sjálfstæðri deild. Magnús var m.a. brautryðjandi í endurhæfingu hjartasjúklinga á Reykjalundi og var mjög annt um skjólstæðinga sína. Magnús lést 19. október síðastliðinn.
Það eru til margar skemmtilegar sögur af upphafsárunum. Á þessum tíma voru talstöðvar notaðar í allri gönguþjálfun. Eitt sinn þegar til stóð að fara í fjallgöngu hafði Magnús verið í sambandi við Landhelgisgæsluna til að athuga hvort hún væri að nota sömu talstöðvarbylgju. Allt fyrir öryggi skjólstæðinganna. Á Reykjalundi voru staðsettar þrjár móðurtalstöðvar og þurftu starfsmenn að tilkynna sig reglulega til móttöku Reykjalundar. Gangan var nýbyrjuð þegar Magnús heyrðist kalla í talstöðina ,,Gæsla, Gæsla.“ Svona kallaði Magnús á tíu mínútna fresti til að reyna ná sambandi við Landhelgisgæsluna. Í fjórða skiptið er svarað ,,Gæslan svarar, Heilsugæslan í Mosfellsbæ“ en hún var þá staðsett á Reykjalundi og var með talstöð hjá sér en sjálf Landhelgisgæsla Ríkisins svaraði ekki.
Árið 1988 markaði ákveðin þáttaskil í starfsemi heilsuþjálfunar en þá var í fyrsta skiptið boðið upp á almenningshlaup sem fékk nafnið Reykjalundarhlaup. Heilsuþjálfunin sá um skipulagningu hlaupsins, framkvæmd og útfærslu í um tíu ára skeið. Reykjalundarhlaupið naut gífurlegra vinsælda og var orðinn nokkuð stór viðburður sem jafnvel bestu hlauparar landsins tóku þátt í.
Til gamans má geta þess að á þessum árum hélt yfirlæknir staðarins, Haukur Þórðarson, svokallaða ,,yfirliðsfundi“ þar sem ákveðnir fulltrúar meðferðarstétta mættu til fundar. Markmiðið með þessum fundum var að efla samráð og upplýsingamiðlun um leið og yfirlæknir fékk aukna innsýn í meðferð hinna ólíku stétta. Í lok þessara funda átti undirritaður það til að segja: „...svo legg ég til að byggt verði íþróttahús og sundlaug.“ Það er skemmst frá því að segja að undirritaður fékk ósk sína uppfyllta, stjórn SÍBS lagði af stað í þessa miklu framkvæmd og leitað var liðsinnis þjóðarinnar með veglegri söfnun. Nýtt meðferðarhús og sundlaug voru tekin í notkun formlega 4. janúar árið 2002. Þessi bygging gjörbreytti allri aðstöðu til hreyfiþjálfunar til hins betra og segja má að um ákveðna byltingu hafi verið að ræða í starfseminni.
Á 45 ára afmæli heilsuþjálfunar á Reykjalundi starfa við deildina fimm íþróttafræðingar í 4,75% stöðugildum. Starfsemin hefur tekið gríðarlegum breytingum og stöðug þróun er á meðferðarúrræðum í samræmi við breytta tíma og áherslur.
Að lokum er vert að nefna það að þegar Logi og Lilja voru ráðin til starfa á Reykjalund, var fyrsti talmeinafræðingurinn einnig fenginn til staðarins ,,Sigga tal“ eins og hún jafnan var kölluð eða Sigríður Magnúsdóttir, talmeinafræðingur. Sigríður var ráðin í fullt starf þannig að nokkur tími vannst til þess að vinna bæði með tal- og málmein á Reykjalundi og um leið að heyrnarmæla skólabörnin í Varmárskóla, á Klébergi og í Ásgarði. Í þær ferðir fór talmeinafræðingurinn með héraðslækninum og hjúkrunarfræðingnum sem sáu um almennar læknisskoðanir á þessum stöðum. Það var góð samvinna við heilsugæsluna og af og til fór talmeinafræðingurinn í vitjanir á heilsugæsluna til að meta tal og mál barna sem þangað áttu leið.
Af þessu tilefni vil ég óska talmeinafræðingum innilega til hamingju með 45 árin!“