Föstudagsmolar forstjóra 6. desember 2024. Gestahöfundur er Heidi Andersen sjúkraþjálfari og formaður verkjateymis.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi
Jólin nálgast óðfluga og í næstu viku nær jólahald hér á Reykjalundi hámarki. Því er vel við hæfi að minna á jólaviðburðina fyrir okkur starfsfólk í næstu viku en nánari upplýsingar um hvern viðburð er að finna á innri síðunni okkar.
Jólaball: Mánudagurinn 9. desember kl 16 í samkomusalnum.
Jólafundur: Miðvikudagurinn 11. desember kl 12:15 í samkomusalnum.
Jólamatur: Fimmtudagurinn 12 . desember í hádeginu.
Jólamyndataka: Fimmtudagurinn 12. desember kl 12:45 í íþróttasalnum.
Annars er gaman að segja frá því að gestahöfundur molanna í dag er Heidi Andersen sjúkraþjálfari og formaður verkjateymis sem býður okkur upp á huggulega aðventuhugvekju.
Njótið helgarinnar!
Bestu kveðjur,
Pétur
Föstudagsmolar 6. desember 2024 – Aðventuhugleiðingar.
Nú er aðventan gengin í garð og er viðburðarík á Reykjalundi eins og á öllum stórum heimilum. Hefðir hafa skapast í gegnum tíðina og ýmislegt skemmtilegt er í gangi þessar þrjár vikur fram að jólum. Sumum kann að finnast nóg um ósköpin en viðburðir eru á húsvísu, í teymum og faghópum. Þetta getur falist í að hlusta á eitthvað skemmtilegt, gera eitthvað skemmtilegt en oft og yfirleitt að borða eitthvað gott sem tengist þessum tíma árs.
Mörg höfum við gaman af þessu þar sem þetta brýtur upp hefðbundna vinnudaga og styttir aðeins þennan tíma sem svartasta skammdegið varir. Það sem gæti kannski verið umhugsunarverður punktur varðandi þetta, er magnið af skemmtilegheitunum. Huggulegheitin gætu hætt að vera hugguleg ef tími er naumur eða ef við höfum hreinlega ekki gaman af því en mætum kannski samt svona til að sýna lit. Það er án efa afskaplega einstaklingsbundið hvað okkur finnst passlegt. Ég er ekki með þessum skrifum að gagnrýna nokkuð þessu tengdu enda hef ég yfirleitt gaman af þessu stússi. Hins vegar er þetta svolítið klassísk umræða fyrir hver jól og setningin “það er alveg brjálað að gera“ hljómar hér og hvar. En hver er mælikvarðinn? Hvenær er komið nóg af jólauppákomum? Kannski einmitt þegar við hættum að hafa gaman af þeim og finnst meiri streita en ánægja felast í því að mæta í jólakósý með teyminu eða hvað annað. Upplifunin þarf líklega helst að vera góð. Danir eiga orð yfir þetta sem margir kannast við: „hygge“ og á þessum tíma er líka til þessi útfærsla: „julehygge“ og á það við um jólakósý-stundir á aðventunni. „Hygge“ er örlítið flókið orð að útskýra því það er tilfinningahlaðið og oft tengt hefðum ýmis konar. En í grunninn þýðir það að skapa hlýlegt umhverfi eða umgjörð til að eiga góðar stundir með góðu fólki. Danir (eins og aðrir) „hygga“ alveg yfir sig á aðventunni en það er allt undir þessum formerkjum og eru mjög gagnrýnir á það hvenær eitthvað er „hyggeligt“ og hvenær ekki. Hver og einn finnur sína fjöl í huggulegheitunum fyrir jólin, hvort sem að er í smáskömmtum eða alla leið eins og t.d. Baggalútsmenn í lagi sínu „Kósíheit par exelans“.
Eigið góðar stundir á aðventunni,
Heidi Andersen
Sjúkraþjálfari og formaður verkjateymis.Til baka