29.11.2024

Föstudagsmolar forstjóra 29.11.2024

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,


Alþingiskosningar – Frambjóðendur svara hvernig skal styðja við og efla endurhæfingarþjónustu.
Nú er minna en sólarhringur þar til kjörstaðir opna fyrir Alþingiskosningar. Nóg er af listum í framboði og frambjóðendur jafn ólíkir og þeir eru margir. Misjafnt er hvaða forsendur við gefum okkur áður en við greiðum atkvæði. Fyrir okkur sem er annt um Reykjalund getur skipt miklu máli hverjir komst á þing og hverjir mun stjórna landinu næstu árin. Samtök fyrirtækja í velferðarþjónustu, sem við erum öflugur aðili að, settu saman stutt myndbönd þar sem framboðin voru beðin að svara hvernig skal styðja við og efla endurhæfingarþjónustu. Stutt svör frá öllum framboðum er að finna hér – hvet ykkur til að kíkja á þetta:

https://samtok.is/frambjodendur-svara-hvernig-skal-stydja-vid-og-efla-endurhaefingarthjonustu/


Heimsóknir frambjóðenda á Reykjalund.


Fyrir þessar kosningar var ákveðið að fá í heimsókn fulltrúa frá helstu framboðslistum hingað á Reykjalund. Almennt var mjög vel tekið í það og gestir okkar gáfu sér góðan tíma. Við sem fulltrúar Reykjalundar og SÍBS gátum því rætt almennt um heilbrigðismál og sagt frá því mikilvæga og góða starfi sem fram fer hér á Reykjalundi. Einnig fór drjúgur hluti tímans í að ræða húsnæðismál Reykjalundar; núverandi stöðu og aðgerðir sem þarf að ráðast í. Þar þarf að ráðast í bráðaaðgerðir snemma á næsta ári með bráðabirgða skrifstofueiningum og svo þarf að móta framtíðarsýn og koma í framkvæmd endurbyggingu húsnæðisins. Ég held að ég sé ekki dónalegur við neinn þegar ég segi að það séu veruleg vonbrigði hve þessi mál ganga seint hjá stjórnvöldum því um helgina er einmitt eitt ár síðan við hér á Reykjalundi lokuðum hluta húsnæðisins vegna óásættanlegra loftgæða fyrir sjúklinga og starfsfólk. Öll þau 80 ár sem Reykjalundur hefur starfað, hefur ríkið ekki greitt neitt fyrir húsnæðið og það ástand er ekki boðlegt lengur. Um það eru allir sammála en hvernig það er nákvæmlega gert virðist því miður hiksta í stjórnkerfinu. En – við erum að sjálfsögðu bjartsýn og ég er sannfærður um að góðir hlutir gerast á nýju ári. Að minnsta kosti er nú fjöldi stjórnmálamanna sem er vel inn í okkar málum og vill hjálpa til, miklu mun stærri hópur eftir þessar heimsóknir en áður var.
Við þökkum öllum frambjóðendum kærlega fyrir komuna og óskum þeim góðs gengis við að stýra landinu en myndin með molunum er einmitt frá heimsóknunum.




Njótið helgarinnar og munið að nota atkvæðisréttinn!


Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka