15.11.2024

Föstudagsmolar forstjóra 15. nóvember 2024.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Það eru alþingiskosningar framundan. Við slík tímamót eru alltaf bæði eftirvænting og óvissa hvað varðar framtíðina. Komið hefur í ljós að heilbrigðismál eru það málefni sem brennur einna mest á þjóðinni fyrir þessar kosningar. Þar er af mörgu að taka og fjölmargar áskoranir bíða. Okkur Íslendingum fjölgar tiltölulega hratt miðað við aðrar þjóðir á Vesturlöndum, þjóðin er að eldast, auknar kröfur eru frá samfélaginu eru um árangursríkar meðferðir og tækni og möguleikum fleygir fram.
Um þriðjungur útgjalda ríkisins fer í málaflokkinn svo það væri óskandi að sem flestir frambjóðendur og alþingismenn notuðu tíma sinn og orku í samræmi við þetta því málaflokkurinn er flókinn. Það þarf að vanda ákvarðanir og hugsa til langs tíma sem því miður hefur ekki alltaf verið raunin. Ómarkviss ákvarðanataka leiðir til þess að fjármagni og tíma er sóað í stað þess að fá sem mest gæði og þjónustu fyrir fjármagnið sem úr er að spila.
Endurhæfing skapar stóran og mikilvægan sess í því að bæta lífsgæði fólks, bæði þeirra sem sannarlega þurfa á þjónustunni að halda en ekki síður fjölda fólks í nánasta umhverfi viðkomandi einstaklings. Um fjárhagslegu hliðina ætti svo ekki að þurfa að fjalla, sparnaður fyrir samfélagið fyrir hvern þann sem fer út á atvinnumarkaðinn aftur í staðinn fyrir að þurfa að þiggja bætur áratugum saman er gríðarlegur, fyrir utan áðurnefnda aukningu lífsgæða.

Mikilvægur hluti af því að gera heilbrigðiskerfið, þennan risastóra þátt í okkar samfélagi, enn betra og markvissara eru rannsóknir. Við á Reykjalundi lítum því á rannsóknastarf okkar sem órjúfanlegan hluta af starfi okkar og framlagi til betra lífs og bættra lífsgæða í samfélaginu.
Það er því vel við hæfi að nokkrar myndir frá Vísindadegi Reykjalundar fylgi molunum í dag. Ég vil þakka Mörtu rannsóknastjóra og Vísindaráðinu okkar fyrir flottan og skemmtilegan Vísindadag Reykjalundar í gær. Jafnframt vil ég þakka öllum fyrirlesurum innilega fyrir erindi sín ásamt því að þakka ykkur öllum sem kíktuð við og nutu dagsins með okkur.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka