Föstudagsmolar forstjóra 8. nóvember 2024. Gestahöfundur er Marta Guðjónsdóttir rannsóknastjóri.
Ég vil byrja molana í dag á því að upplýsa að framkvæmdastjórn, stjórn Reykjalundar endurhæfingar ehf. og stjórn SÍBS hafa tekið ákvörðun um að færanlegar skrifstofueiningar verði settar upp á lóð Reykjalundar. Um er að ræða starfsstöðvar fyrir 20-30 starfsmenn. Þetta mun bæta starfsaðstöðu og ekki síst að fjölga gistirýmum. Nú er unnið í því að fá endanleg tilboð í einingarnar en uppfæra þurfti eldri tilboð sem við höfðum fengið fyrr á árinu. Einingarnar verðar staðsettar í portinu milli C- og D-álma, þar sem er malarbílastæði núna. Um leið og endanlegt val á einingum og tímasetningar liggja fyrir, munum við hefja frekari undirbúning og upplýsa ykkur nánar um hvaða starfsmenn flytjast til og hvernig ferlið við það verður.
Annars er spennandi dagur hjá okkur í næstu viku þegar Vísindadagur Reykjalundar verður haldinn hátíðlegur. Það er því vel við hæfi að Marta Guðjónsdóttir rannsóknastjóri sé gestahöfundur molanna í dag.
Góða helgi!
Bestu kveðjur,
Pétur
Föstudagsmolar 8. nóvember 2024. Um vísindastarf.
Kæra samstarfsfólk á Reykjalundi,
Á fimmtudaginn í næstu viku, 14. nóvember, verður vísindadagur á Reykjalundi í tuttugasta og fyrsta sinn. Vísindadagur Reykjalundar er árlegur viðburður og er mikilvæg uppskeruhátíð vísinda, þar sem starfsmenn og gestir setjast niður og hlusta á stutt erindi samstarfsfólks og nemenda þeirra um rannsóknir á Reykjalundi. Dagskráin er fjölbreytt eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Þeir sem ætla að mæta eru vinsamlegast beðnir um að skrá sig hér fyrir hádegi þriðjudaginn 12. nóvember.
Umfangsmikil endurhæfingarmeðferð.
Í október síðastliðnum var haldin 22. líf- og heilbrigðisvísindaráðstefna Háskóla Íslands. Þar voru kynningar á öllu því nýjasta í líf- og heilbrigðisvísindum á Íslandi, meðal annars á árangri meðferðar á Reykjalundi. Þar kom mörgum áheyrendum á óvart hversu víðtæk og umfangsmikil meðferðin á Reykjalundi er, því margir hafa gert sér mynd af mun einfaldara úrræði. Eins vakti það mikla athygli hversu góður árangur næst í endurhæfingu einstaklinga með fjölþættan og flókinn vanda svo sem langvinn einkenni eftir Covid. Þessi góði árangur næst vegna þess að hér er vel menntað fagfólk að störfum sem kann til verka og fylgir viðurkenndum klínískum leiðbeiningum í störfum sínum við þverfaglega læknisfræðilega endurhæfingu.
Endurhæfing á Reykjalundi en hvað svo?
Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar í gegnum tíðina á árangri endurhæfingar á Reykjalundi. Niðurstöður þeirra, sem hafa verið birtar í viðurkenndum vísindatímaritum (sem má sjá hér) og/ eða í lokaritgerðum nemenda frá háskólum landsins (sjá hér), sýna mikinn árangur og breytingar til batnaðar hvort heldur er á andlegri, félagslegri eða líkamlegri heilsu. En hvað svo þegar endurhæfingunni er lokið? Í mörgum þessara rannsókna hefur það verið metið og mælt hvernig skjólstæðingar Reykjalundar viðhalda árangri endurhæfingarinnar eftir að meðferð lýkur. Á vísindadeginum í næstu viku ætlar undirrituð að fara yfir hvað hefur komið út úr þessum eftirfylgnirannsóknum.
Framtíðin.
Ég óska öllum góðrar helgar og vona að hvert og eitt ykkar nái að slaka á og vera í samvistum við gott fólk (sem getur verið maður sjálfur). Ég enda þennan pistil á setningu sem kennd er við Mark Twain: „Við ættum að einbeita okkur að framtíðinni, það er þar sem við verðum það sem eftir er ævinnar“.
Góðar stundir,
Marta Guðjónsdóttir,
rannsóknarstjóri