01.11.2024

Föstudagsmolar forstjóra 1.Nóvember 2024

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

 

Alþjóðadagur iðjuþjálfunar.

Mig langar að hefja molana í dag á því að óska iðjuþálfum okkar til hamingju með alþjóðadag iðjuþjálfunar sem var á sunnudaginn, 27. október. Í tilefni dagsins hélt Iðjuþjálfafélag Íslands málþing undir yfirskriftinni „Iðjuþjálfun fyrir alla.“ Á heimsíðu félagsins er starfi iðjuþjálfa meðal annars lýst svo: „Iðjuþjálfar starfa með fólki á öllum aldri sem af einhverjum ástæðum glímir við iðjuvanda sem hamlar þeim í hversdeginum og hindrar þátttöku. Iðjuþjálfar eru ein af lykilstéttunum innan forvarna, vinnuverndar og endurhæfingar. Þjónusta þeirra og vinnuaðferðir byggja á gagnreyndri þekkingu og viðurkenndu verklagi. Starfsvettvangurinn er breiður og má nefna heilbrigðis- og félagsþjónustu, skóla, félagasamtök, sjálfseignarstofnanir, stjórnsýslu og fyrirtæki á almennum vinnumarkaði.“
Við hér á Reykjalundi erum ákaflega stolt af okkar glæsilegu deild iðjuþálfunar og starfsfólkinu þar, enda erum við einn stærsti vinnustaður iðjuþálfa hér á landi.


Kveðjuboð fyrir góða starfsfélaga.

Reykjalundur hélt nýlega kveðjuboð fyrir starfsfólk sem hefur látið af störfum hjá okkur á árinu. Nú er komin sú venja að haldin eru kveðjuboð að vori og hausti enda viljum við þakka góðu samstarfsfólki fyrir samstarf, samveru og samvinnu með formlegum hætti. Eins og við er að búast komast aldrei allir en að þessu sinn voru sex starfsmenn kvaddir sem eðlilega hafa starfað mislengi hjá okkur. Gaman var að fjöldi úr starfsmannahópi okkar lagði leið sína til að kveðja þau. Viljum við senda þakklætiskveðjur til hinna fyrrverandi samstarfsfélaga okkar og óskum þeim alls hins besta á nýjum slóðum, hvort sem leið þeirra liggur að starfslokum eða á aðra vinnustaði. Myndin með molunum í dag var einmitt tekin í kveðjuboðinu. Á myndinni eru frá vinstri Guðbjörg mannauðsstjóri, Ólafur Þór Gunnarsson læknir, Ragnheiður Lýðsdóttir sjúkraþjálfari, Sigurbjörg Helga Bender á Hlein, Elínborg Bjarnadóttir heilbrigðisgagnafræðingur, Heiða Knútsdóttir sjúkraþjálfari, Sunna Karen Ingvarsdóttir og Pétur forstjóri.


Jólagjöf til starfsfólks.

Eins og kynnt var á starfsmannafundinum okkar í síðustu viku vil ég segja frá því að jólagjöf Reykjalundar til okkar starfsfólks þetta árið er að þrír starfsdagar verða gefnir í jólagjöf/jólafrí. Um er að ræða hálfan vinnudag á aðfangadag, hálfan vinnudag á gamlársdag, föstudaginn 27. desember og mánudaginn 30. desember. Þann 23. desember er full starfsemi og sjúklingar boðaðir í hús.
Vonandi nýtist þessi gjöf ykkur vel til að hvíldar eftir viðburðaríkt ár og til að safna kröftum fyrir hið spennandi ár sem framundan er, 2025.


Njótið helgarinnar!


Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka