Föstudagsmolar forstjóra 25. október 2024. Gestahöfundur er Erna Bjargey Jóhannsdóttir sviðstjóri hjúkrunar.
Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,
Ég vil byrja á að þakka kærlega fyrir frábæra þátttöku hjá okkur í Bleika deginum á miðvikudaginn og flotta mætingu á starfsmannafundinn. Glærur fundarins hafa þegar verið sendar út í sérstökum pósti. Jafnframt vil ég þakka ykkur fyrir góða mætingu í kveðjuboð Reykjalundar í gær.
Í dag er sumardagurinn síðasti og því fyrsti vetrardagur á morgun. Það er því vel við hæfi að þakka fyrir skemmtilegt sumar og ég hlakka til samstarfsinns í vetur. Einn af styrkleikum Reykjalundar er einmitt teymisvinnan sem er samstarfsform sem við hér á Reykjalundi erum heldur betur að nýta okkur. Teymisvinna er einmitt umfjöllunarefni föstudagsmolanna í dag þar sem Erna Bjargey Jóhannsdóttir, sviðstjóri hjúkrunar, er gestahöfundur og kann ég henni bestu þakkir fyrir áhuaverðan pistil.
Njótið helgarinnar!
Bestu kveðjur,
Pétur
Föstudagsmolar 25. október 2024. Um teymisvinnu.
Teymisstarf er skipulagsform sem miðar að því að nýta hæfni og sérþekkingu einstaklinga á árangursríkan hátt í verkefnum þar sem stefnt er að sameignlegum markmiðum. Margir eru sammála um að teymisstarfs sé lykilatriði í nútíma vinnuumhverfi. Í teymi koma fjölbreytt sjónarhorn og hæfileikar saman til að leysa flókin verkefni. Sterk teymi byggja á trausti, skýrum hlutverkum og stöðugri endurgjöf. Í fyrirtækjum og stofnunum nútímans er teymisvinnan gjarnan talin grundvöllur árangurs.
Til þess að verða góður liðsmaður í teymi er talað ýmsa eiginleika sem eru mikilvægir fyrir einstaklinga. Þeir þrír sem oft er talað um að séu þeir mikilvægustu eru að hafa tilfinningagreind, vera hógvær og að hafa metnað.
Tilfinningagreind snýst um að hafa skilning á samskiptum og almenna heilbrigða skynsemi frekar en háa greindarvísitölu. Að þekkja fólk, geta skilið það og geta unnið með því eru þættir sem eru mikilvægir í tilfinningagreind. Að vita hvernig orð og gerðir geta haft áhrif á aðra, til góðs eða ills, er hluti af tilfinningagreind.
Hógværð er af sumum fræðimönnum talinn mikilvægasti eiginleiki teymismeðlims. Þá er átt við að einstaklingur þurfi ekki mikla athygli sjálfur, tali hæfilega mikið og geti sett hagsmuni teymis ofar eigin hagsmunum. Hann er ekki að hugsa um sjálfan sig en er sjálfsöruggur og meðvitaður um eigin hæfni án þess að flagga henni. Þessi hógværi einstaklingur fagnar því þegar öðrum gengur vel.
Þriðji eiginleikinn sem talinn er mikilvægur fyrir einstakling í teymi er metnaður. Þá er átt við að vilja leggja sig fram til þess að ná árangri. Metnaðarfullur einstaklingur er viljugur til þess að klára verkefni sín og gera betur og þarf í raun ekki hvatningu til þess. Í teymum er talað um metnað í þeim skilningi að einstaklingur sé tilbúinn að takast á um málefni og bjóði sig gjarnan fram til að taka meiri ábyrgð. Einstaklingur með metnað leitar að leiðum til þess að leggja sitt af mörkum og gera betur.
Þar sem teymisvinna er stunduð í heilbrigðisþjónustu á sjúklingurinn ávallt að vera miðpunktur teymisins, og í raun ætti hann að vera virkur þátttakandi í meðferðinni. Teymin vinna með sjúklingum, ekki bara fyrir hann. Með þessari nálgun ætti að nást heildræn sýn á vanda sjúklings.
Á Reykjalundi er unnið í þverfaglegum meðferðarteymum sem byggjast á mörgum þáttum en líklega eru þeir mikilvægustu samvinna milli fagfólks og svo samvinna milli fagfólks og sjúklinga þeirra. Þetta skilar aukinni samfellu í endurhæfingu sjúklinga og er talið auka gæði í þjónustu okkar. Einnig skilar teymisvinnan meiri starfsánægju og þess má geta að rannsóknir sýna að heilbrigðisstarfsfólk sem vinnur í virkri teymisvinnu hefur lægra streitustig en hinir sem ekki gera það. Sennilega eru ekki margar heilbrigðisstofnanir á landinu sem hafa unnið eins lengi í teymum og við á Reykjalundi.
Erna Bjargey Jóhannsdóttir,
Sviðsstjóri hjúkrunarTil baka