18.10.2024

Föstudagsmolar forstjóra 18. október 2024

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,


Þvílíkt partý!
Sagan segir að eitt best heppnaða partý þessarar aldar hafi farið fram í Hlégarði í gærkvöldi. Þá blés okkar glæsilega starfsmannafélag til haustfagnaðar. Það var frábær og mæting og mikið stuð; Andri Ívars uppistandari og trúbador sá um að kítla hláturtaugarnar og halda upp stuðinu (já, það var mikið sungið) og Búllan grillaði borgara og meðlæti fyrir alla. Svo var dansað fram eftir öllu og leyndir hæfileikar komu fram hjá ýmsum í starfsmannahópnum okkar.
Ég vil nota þetta tækfæri og þakka forkólfum starfsmannafélagsins kærlega fyrir frábært kvöld, sem og ykkur öllum sem mættuð – Reykjalundur er sannarlega að rokka!
Það er vel við hæfi að myndin með molunum í dag sé frá gærkvöldinu en á myndinni eru þær Þuríður, Ásdís og Erla úr stjórn starfsmannafélagsins ásamt Andra Ívars skemmtikrafti.


Bleikur dagur í næstu viku.
Eins og kynnt hefur verið tekur Reykjalundur þátt í árvekniátakinu Bleikur október með virkum hætti. Með þessu erum við að sýna samstöðu með og vekja athygli á baráttunni gegn krabbameini kvenna.  Meðal annars er Reykjalundur lýstur upp í bleikum lit þennan mánuðinn og hefur þetta framtak fengið mjög góðar viðtökur.
Hápunktur Bleika október er án efa Bleiki dagurinn sem fram fer á miðvikudaginn, 23. október, en þá hvetjum við alla – starfsfólk, sjúklinga og aðra gesti – til að klæðast bleiku.
Við hér á Reykjalundi höfum verið dugleg að sýna samstöðu í verki og klæðast bleiku á Bleika deginum undanfarin ár og vil ég endilega hvetja alla til að gera slíkt hið sama næsta miðvikudag.


Sumarhlé Reykjalundar 2025.
Þó enn séu 67 dagar til jóla eru margir farnir að huga að komandi sumri. Því langar mig að staðfesta við ykkur að meðferðarhlé verður gert á starfsemi Reykjalundar í þrjár vikur næsta sumar eins og verið hefur síðustu ár. Dagsetningar meðferðarhlés eru 14. júlí - 1. ágúst 2025. Síðasti vinnudagur fyrir hlé er föstudagurinn 12. júlí og fyrsti vinnudagur eftir hlé er þriðjudagurinn 5. ágúst.
Guðbjörg mannauðsstjóri mun kynna þetta betur á næstunni og fyrirkomulag í kringum þetta.


Að lokum vil ég svo minna á starfsmannafundinn okkar í hádeginu á miðvikudaginn og kveðjuboðið fyrir stafsmenn sem hafa hætt undanfarna mánuði, á fimmtudaginn. Það væri gaman að sjá ykkur sem allra flest á báðum þessum viðburðum.


Góða og gleðilega helgi!


Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka