11.10.2024

Föstudagsmolar 11. október 2024. Í tilefni af Alþjóða gigtardeginum.



Ár hvert, þann 12. október er Alþjóða gigtardeginum (World arthritis day) fagnað. Ýmis áhugafélög um gigtarsjúkdóma vekja þá sérstaka athygli á þessum fjölbreytta flokki sjúkdóma.  
Ef flett er upp í íslenskri orðabók Árnastofnunar er orðinu gigt lýst sem kvenkyns nafnorði sem þýðir „ýmsir sársaukafullir sjúkdómar í bandvef og stoðkerfi líkamans, m.a. bólgusjúkdómar.  
Á vef Gigtarfélags Íslands eru helstu flokkar gigtarsjúkdóma taldir upp; bólgusjúkdómar eins og iktsýki, rauðir úlfar, æðabólgur og skyldir sjúkdómar, hrygggikt, psoriasisgigt, barnagigt, kristallagigt eins og t.d. þvagsýrugigt, slitgigt, vöðva- og vefjagigt, beinþynning og fleira. Af þessum lista má ráða að sjúkdómarnir geta verið í eðli sínu mjög ólíkir þó þeir geti síðan allir valdið verkjum, stirðleika, þreytu, skerðingu á hreyfigetu og annarri getu til að lifa daglegu lífi. 


Alþjóða gigtardeginum var fyrst komið á fót árið 1996 af Arthritis and Rheumatism International sem eru alþjóðasamtök áhugafólks um gigtarsjúkdóma árið 1996. Það hefur þó fjarað undan starfsemi þessara samtaka og síðustu ár hefur EULAR (sem reyndar var stofnað 1947) sem áður hét European League Against Rheumtism tekið við keflinu að vekja athygli á málefninu, sem evrópsk samtök gigtarlækna og fagfólks sem fæst við rannsóknir og meðferð á gigtar- og beinvöðvasjúkdómum (RMD).


Þema ársins 2024 er „Informed choices, better outcomes“, eða „upplýst val, betri niðurstaða“. Það minnir okkur á að til er fjöldinn allur af meðferðum við sjúkdómum og meinsemdum í stoðkerfinu og eitt af því mikilvægasta er að sjúklingar séu vel upplýstir um sinn sjúkdóm, hverjar mögulegar meðferðir eru til og hvað gæti gagnast þeim best til að geta tekið fullan þátt í sinni meðferð til að ná sem bestri heilsu og lífsgæðum. 


Mikil og ör þróun hefur orðið síðustu 30 ár í meðferð bólgugigtar. Fjöldi líftæknilyfja, sem beinast að sérhæfðum hlutum ónæmiskerfisins hafa komið á markaðinn. Hægar hefur gengið að finna lyfjameðferð t.d. við slitgigt eða vefja gigt þó virkar rannsóknir séu stundaðar á þessum sviðum og mögulega eru fleiri lyfjamöguleikar við sjóndeildarhring. En þrátt fyrir þessar miklu framfarir ná ekki allir sjúklingar algeru sjúkdómshléi jafnvel þótt líftæknilyfjum sé beitt. Sænskar tölur sýna að þriðjungur sjúklinga nær ekki sjúkdómshléi og að meira en þriðjungur sjúklinga tjá verk a.m.k. 40 á 100 skala. Margir þjást einnig áfram af þreytu, lélegum svefngæðum og þunglyndiseinkennum sem minnkar lífsæði og líkamlega virkni.  


Það er því áfram gríðarlega mikilvægt að möguleiki á þverfaglegri endurhæfing gigtarsjúklinga sér til staðar eins og sú sem sjúklingar njóta á Reykjalundi. Gigtsjúkdómar eru langvinnir sjúkdómar og getur sjúklingar því þurft á endurhæfingu að halda bæði snemma í sjúkdómsferlinu og eftir margra ára sjúkdóm, allt mjög einstaklingsbundið. Þeir eru einnig meðal þeirra langvinnu sjúkdóma þar sem mest hætta er á heilsutengdri lífsgæða skerðingu. 


Markmið gigtarendurhæfingar er að sjúklingur komist til góðrar heilsu, líkamlegrar virkni og lífsgæða og hafi eðlilega getu til að taka þátt í samfélaginu 
Það hefur einnig verið sýnt fram á að einstaklingsmiðuð nálgun skilar bestum árangri og ef unnið er í teymi og hér á Reykjalundi hefur með árunum orðið til ómetanleg þekking á endurhæfingu við gigtarsjúklinga sem við getum verið stolt af. 

Lovísa Leifsdóttir,
Gigtarlæknir og yfirlæknir gigtarteymis.

Til baka