04.10.2024

Föstudagsmolar forstjóra 4. október 2024.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Auglýst eftir verkefnastjóra innleiðingar á  CARF-gæðakerfinu.
Það verða tímamót hjá okkur á Reykjalundi á næsta ári þegar við innleiðum alþjóðlegt gæðakerfi fyrir endurhæfingu (CARF) í fyrsta skipti á Íslandi. Með innleiðingunni verðum við samanburðarhæf við það sem best gerist í heiminum í endurhæfingu en þar á Reykjalundur sannarlega heima, í hópi þeirra sem fremst standa í heiminum í endurhæfingarþjónustu. Nýlega fengum við tveggja milljón króna styrk til innleiðingarinnar og við erum vongóð um fleiri styrki. Mikil vinna og skipulagning er við fá vottun sem þessa en styrkveitingarnar gera það að verkum að nú er búið að auglýsa starf verkefnastjóra CARF. Okkur vantar því öflugan snilling til að vera verkefnastjóri í þessu spennandi máli og hafa umsjón með innleiðingu ýmissa verkferla og umbótaverkefna til að ná þessum áfanga. Auglýsingin er komin inn á alfred.is og þið megið gjarnan ýta við fólki að sækja um ef þið teljið ykkur vita um rétta snillinginn í þetta.


Bleikur Reykjalundur í Bleikum október.
Nú í október er Bleikur október sem sem er árlegt árvekni- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands í tengslum við sölu á Bleiku slaufunni. Krabbameinsfélagið hefur staðið fyrir Bleikum október í vel á annan áratug. Hápunkturinn er Bleiki dagurinn sem verður þetta árið miðvikudaginn 23. október. Líkt og undanfarin ár ætlum við hér á Reykjalundi að sýna stuðning í verki með ýmsum hætti. Meðal annars munum við á Bleika deginum hvetja starfsfólk, sjúklinga, skjólstæðinga og aðra gesti okkar til að klæðast bleiku. Jafnframt er Reykjalundur lýstur upp í bleikum lit nú í október og afraksturinn má sjá á annarri myndinni sem fylgir molunum í dag. Á hinni myndinni má sjá Guðmund Örn í umsjón fasteigna, sem á heiðurinn að lýsingunni og Fannar, forstöðumann upplýsinga- og velferðartækni, en þeir hafa sannarlega báðir komið sterkir inn í Reykjalundarsamfélagið í störfum sínum síðan þeir hófu hér störf í sumar.
Við auglýsingum bleiku dagskrána svo sérstaklega þegar nær dregur.

Taktu frá 12. febrúar - Afmælisráðstefna Reykjalundar um endurhæfingu.
Á næsta ári fögnum við hér á Reykjalundi 80 ára afmæli og verðum það gert með ýmsum hætti. Einn af fyrstu áföngunum er árleg ráðstefna Reykjalundar um endurhæfingu en þessi 80 ára afmælisráðstefna okkar verður að þessu sinni heils dags ráðstefna sem haldinn verður miðvikudaginn 12. febrúar 2025 á Hótel Natura (áður Hótel Loftleiðir).
Skráningamál og dagskrá verða auglýst vel og rækilega þegar nær dregur en við hvetjum ykkur til að taka daginn strax frá. Skemmst er að minnast glæsilegrar ráðstefnu okkar fyrr á þessu ári þar sem fræðsla til heilbrigðisstarfsfólks um offitumeðferð var sett á oddinn en þar tóku yfir 200 manns þátt. Við vonumst til að sjá sem allra flesta.

Njótið helgarinnar!

Bestu kveðjur,
Pétur

Til baka