Föstudagsmolar 27. september 2024 – Frá fjármálastjóra
Sæl kæru samstarfsmenn,
Nú er farið að líða að hausti og fjármáladeild farin að leiða hugann að árinu 2025. Haustverk deildarinnar er ávallt að gera áætlun fyrir næstkomandi ár en þessa vinnu þarf að skipuleggja vel og taka ákvarðanir um hvort hægt sé að betrumbæta ferlana okkar.
Þessi vinna er alltaf skemmtileg en þetta er nokkur fjöldi starfsmanna sem kemur að verkefninu. Þetta eru mörg púsl sem þurfa öll að smella saman og alltaf gaman að sjá þegar „Áætlun 2025“ rís upp úr vinnu sem virðist stundum vera óreiðukennd.
Ef við lítum aðeins í baksýnisspegilinn þá notuðum við sumarið í að uppfæra bókhalds- og upplýsingakerfin hjá okkur. Nú státar Reykjalundur að því að hafa mjög flott kerfi fyrir upplýsingar sem verða bæði tímanlegri og nákvæmari. Núna koma allir reikningar til okkar rafrænt og eru einnig samþykktir rafrænt. Þetta er mikil framför og prentarinn okkar orðinn atvinnulaus. Við prentum í alvörunni ekkert út lengur.
En það sem skiptir mestu máli er að stjórnendur okkar hafi sem bestar upplýsingar um reksturinn á hverjum tíma. Þetta snýst ekki bara um að setja upplýsingar inn í kerfið, við þurfum að fá upplýsingar út úr kerfinu líka.
Við erum núna á lokametrunum að innleiða mælaborð þar sem hægt er að skoða upplýsingar út frá þeim víddum sem við notum svo sem deildir, svið og verkefni. Þar geta stjórnendur borað sig niður á færslur í bókhaldinu og skoðað öll frávik frá áætlun með einföldum hætti.
Nýju kerfin hafa fært okkur ábata nú þegar og nú hafa stjórnendur fengið tól í hendurnar sem hjálpar mikið við að sjá hvernig við nýtum fjármuni okkar sem allra best.
Fyrir þá sem vilja vita þá heitir bókhaldskerfið Business Central og mælaborðin eru Power BI.
En aðeins að höfundi, mér finnst ég alltaf vera nýbyrjuð en núna eru þetta að verða 8 mánuðir í starfi og þið flest farin að kannast við mig. Ég er löggiltur endurskoðandi og hef starfað undanfarin ár í fjármáladeildum SORPU, Icelandair og Inkasso/Netgíró. Ég hef hvorki unnið í heilbrigðisþjónustu né hef ég búið í Mosfellsbæ og fannst pínulítið eins og ég væri aðkomumaður þegar ég byrjaði :D
Engu að síður hafa þessir mánuðir verið ansi ánægjulegir og það er yndislegt að starfa á Reykjalundi. Ég þakka ykkur öllum fyrir góðar móttökur, hjálpfýsi og þolinmæði.
Ást og friður,
Sigríður Katrín Kristbjörnsdóttir,
Fjármálastjóri Reykjalundar endurhæfingar ehf.