30.08.2024

Föstudagsmolar forstjóra 30. ágúst 2024 - Gestahöfundur er Árdís Björk Ármannsdóttir framkvæmdastjóri lækninga.


Föstudagsmolar forstjóra 30. ágúst 2024 - Gestahöfundur er Árdís Björk Ármannsdóttir framkvæmdastjóri lækninga.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,

Bestu þakkir fyrir flotta mætingu á starfsmannafundinn okkar síðasta miðvikudag. Glærurnar sem notaðar voru hafa þegar verið sendar í sérstökum tölvupósti til allra starfsmanna.
Annars koma föstudagsmolar vikunnar hér. 
Gestahöfundur í dag er Árdís Björk Ármannsdóttir framkvæmdastjóri lækninga og nefnir hún áhugaverðan pistil sinn „Framkvæmdastjóri lækninga býður upp í dans!“

Vonandi njótið þið helgarinnar, ekki síst þið sem takið þátt í bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima.

Bestu kveðjur,
Pétur
 


 
Föstudagsmolar 30. ágúst 2024 – Framkvæmdastjóri lækninga býður upp í dans!


Ertu til í það? Taka einn snúning og láta vaða? Gera eitthvað annað en venjulega, fara út fyrir þægindarammann, dansa, hlusta á tónlist og fara með gleði og dans inn í vinnuvikuna? Það eru allir velkomnir í dans í samkomusalnum mánudaginn 2. september kl 12:05-12:15. Því fleiri því betra! Og helst af öllu ALLIR MEÐ!

Annars hef ég þær frábæru gleðifréttir að færa (svo sem ekki fyrst með fréttirnar) að framkvæmdastjórn hefur tekið þá ákvörðun að sækja um gæðavottun og fara í gegnum alþjóðlegt gæðavottunarferli CARF (Commission on Accreditation of Rehabilitation Facilities). Við höfum valið að sækja um vottun á dagdeildarstarfseminni (Outpatient Medical Rehabilitation) og einnig á legudeildarendurhæfingunni (Comprehensive Integrated Inpatient Rehabilitation Program). Sjá nánar : Medical Rehabilitation - CARF International. Undirbúningur er þegar hafinn og stefnt er að formlegri vottun maí/júní 2025. 

En hvað er CARF:
Óhagnaðardrifin starfsemi frá Bandaríkjunum sem veitir gæðavottanir um allan heim. Hægt er að fá CARF vottun á mörgum sérsviðum, læknisfræðileg endurhæfing er eitt þeirra. Notað fyrir stóra og litla starfsemi, bæði í almenningsþjónustu og  einkageira.

Og af hverju viljum við fá vottun með CARF?
Tryggir alþjóðleg gæði á læknisfræðilegri endurhæfingu. 
Stöðug þróun í að bæta þjónustu við sjúklinga. 
Eykur þekkingu á eigin starfsemi og mikilvægi þess að hafa eigin markmið. 
Tryggir skipulagða starfsemi og hjálpar til við að vera skrefi á undan. 
Vera þátttakandi í þróun sérgreinarinnar. 
Taka ábyrgð á að auka lífsgæði og skilyrði sjúklinga –  með því að hafa áhrif á umhverfið og samfélagið. 
Mikilvægt leiðarljós þegar breytingar eru í farvatninu.

Hvað er framundan?
Ljóst er að umfangsmikil vinna þarf að fara fram þangað til og munu stjórnendur og starfsfólk sem koma að faglegu starfi á Reykjalundi, gæðamálum, mannauðsmálum, fjármálum og upplýsingatækni gegna þar lykilhlutverki. 

Mig langar innilega að biðja ykkur öll að taka þessu verkefni með opnum örmum og með jákvæðu hugarfari. Ég veit þó af fenginni reynslu að þetta mun verða mikið átak og við getum átt von á tímabilum sem einkennast af ótta, vonleysi og yfirþyrmandi tilfinningum – EN þá er mikilvægt að halda áfram og halda út – því það er þess virði! 
Þessar tilfinningar munu breytast í innblástur, öryggi og stolt og við munum öðlast frábær verkfæri sem munu skipta gríðarlega miklu máli fyrir starfsemina okkar á Reykjalundi.

Að lokum vil ég  hvetja öll teymin til að byrja sem fyrst með fasta hálftíma fundi í hverri viku þar sem til skiptis eru rædd skipulagsmál teymis og hins vegar fræðsla. Með þessu skipulagi náum við að vinna saman að CARF stöðlum sem og uppfylla ákveðna staðla.

CARF vottun er stórt skref fyrir Reykjalund og ég hef mikla trú á því að þetta muni hafa jákvæð áhrif á starfsemi Reykjalundar sem og endurhæfingu á Íslandi.  Enda er þetta í fyrsta skipti sem sótt er um þessa vottun hér á landi. Ég er þess fullviss að þetta mun auka gæði þjónustunnar, efla þekkingu og tryggja þjónustu og öryggi sjúklinga á betri og skipulagðari hátt. 

Annars bara dansandi CARF kveðjur frá framkvæmdastjóra lækninga!

Góða helgi og sjáumst í samkomusalnum á mánudaginn!
Árdís Björk Ármannsdóttir, endurhæfingarlæknir

 

Til baka