23.08.2024

Föstudagsmolar forstjóra 23. ágúst 2024.

Ágæta samstarfsfólk hér á Reykjalundi,


Það hafa aldeilis skipst á skin og skúrir í veðrinu í þessari viku sem er að klárast. Vikan byrjaði á dásamlegri blíðu sem náði hámarki á þriðjudaginn þegar íbúar á Hlein nýttu sólina fyrir skemmtilega útihátíð á lóðinni sinni. Við gripum líka tækifærið og fengum ísbílinn í heimsókn en við höfum beðið eftir rétta tækifærinu í allt sumar. Þar bauð Reykjalundur okkur starfsfólki og sjúklingum upp á ís í blíðunni og gaman var að sjá hversu margir gáfu sér tíma til að nýta sér boðið.
Myndin með molunum í dag er einmitt frá heimsókn ísbílsins á þriðjudaginn og sýnir iðjuþjálfana Elísabetu, Hörpu og Herdísi ásamt Guðrúnu Jónu næringarfræðingi við að gæða sér á ísnum.


Hundahlaupið á Reykjalundi miðvikudaginn 28. ágúst.
Bæjarhátíð Mosfellsbæjar, Í túninu heima, fer fram um aðra helgi. Þar sem lítil starfsemi er hjá okkur um helgar höfum við hér á Reykjalundi ekki verið mjög virkir þátttakendur í hátíðarhöldunum gegnum árin. Þetta árið tökum við þó þátt með þeim hætti að Hundahlaupið fer fram hér á svæði Reykjalundar en undanfarið höfum við gjarnan vilja tengja okkur við nærsamfélagið með því að opna svæðið okkar fyrir lýðheilsuverkefnum eins og til dæmis hreyfi- og íþróttaviðburðum á borð við KB þrautina og hjólreiðakeppnir. Hundahlaupið er opið öllum sem vilja hreyfa sig með hundinn sinn. Hlaupið er fyrir alla hunda og allt fólk óháð aldri og fyrri störfum, en hlaupið er bæði fyrir vana hlaupara og þá sem vilja eiga skemmtilega stund með hundinum sínum eins og segir í auglýsingu hlaupsins.  Í boði eru tvær hlaupaleiðir. Annars vegar 5 km tímataka og hins vegar 2 km skemmtiskokk, leið fyrir þá sem vilja taka því rólega og njóta í fallegu umhverfi.
Hlaupið hefst og endar hér á grasflötinni við Reykjalund kl 18 en svæðið opnar mun fyrr og upphitun fer í gang kl 17:30. Við hvetjum alla hundaeigendur til að taka þátt en allar nánari upplýsingar um skráningu o.fl. er að finna hér

 


Bráðaráð Reykjalundar sett á fót.
Þó Reykjalundur sé ekki bráðasjúkrahús geta bráð tilvik sannarlega komið upp í okkar daglega starfi. Nýlega samþykkti framkvæmdastjórn að stofna formlegt Bráðaráð Reykjalundar en dæmi um hlutverk slíks ráðs eru að:
Yfirfara verkferla er snúa að bráðatilvikum.
Yfirfara neyðarbúnað reglulega.
Halda utan um og sjá til þess að æfingar séu haldnar reglulega.
Boða til og halda utan um fundi til viðrunar eftir bráðaatvik.
Yfirfara og skrá bráðatilvik, hvað betur má fara og gera viðeigandi úrbætur.
Önnur atriði sem bráðaráði þykir mikilvæg í þessu sambandi.
Í ráðið voru skipuð læknarnir Inga S. Þráinsdóttir og Jónína R. Einarsdóttir, Helga Pálmadóttir, sviðstjóri hjúkrunar á meðferðarsviði 2 og Berglind Gunnarsdóttir gæðastjóri. Einnig situr í ráðinu Fannar Sólbjartsson forstöðumaður upplýsinga og velferðartækni en hann er þrautreyndur sjúkraflutningamaður. Fannar verður formaður ráðsins og sendum við nýju Bráðaráði Reykjalundar hinar bestu kveðjur. 


Að lokum vil ég minna ykkur á fyrsta starfsmannafund okkar í vetur sem verður í hádeginu á miðvikudaginn kl 12:15.
Gleðilega menningarnótt og maraþon – njótið helgarinnar!


Bestu kveðjur,
Pétur

 

Til baka